Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   sun 26. september 2021 19:11
Brynjar Ingi Erluson
Nuno tók rangar ákvarðanir í liðsvali: Ég tek fulla ábyrgð á því
Nuno
Nuno
Mynd: EPA
Nuno Espirito Santo, knattspyrnustjóri Tottenham, var bugaður eftir 3-1 tapið gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag en liðið er aðeins með tíu stig eftir fyrstu sex leikina og virðist fátt ganga upp hjá þeim hvítklæddu þessa dagana.

Arsenal leiddi með þremur mörkum þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Tottenham náði inn í einu marki frá Heung-Min Son þegar lítið var eftir og þá var Lucas Moura nálægt því að bæta við öðru en Aaron Ramsdale sá við honum.

Nuno var ósáttur við frammistöðuna og segir að það megi laga margt í leik þeirra.

„Frammistaðan var ekki góð. Leikplanið og ákvarðanatökur voru ekki góðar, þannig þetta var allt í allt ekki góður dagur fyrir okkur," sagði Nuno.

„Ég ætla að vera hreinskilinn. Þegar þú ert með leikplan þá verður þú að taka réttar ákvarðanir þegar það kemur að velja leikmenn til að fylgja því plani á vellinum. Ég tek fulla ábyrgð því ákvarðanirnar voru ekki samkvæmt leikplani. Ég ætla ekki að nefna þá einstaklinga en þetta var ekki rétt samkvæmt þeim leikmönnum sem voru á vellinum."

„Við vorum ekki nógu grimmir til að stjórna miðjunni. Við fengum að finna fyrir því þegar við reyndum að komast yfir og leyfðum Arsenal alltaf að koma til okkar. Þetta voru slæmar ákvarðanir."


Harry Kane vildi fá víti þegar hann féll í teignum eftir viðskipti sín við Granit Xhaka. Svissneski miðjumaðurinn ætlaði að reyna að hreinsa frá en virðist sparka í Kane.

„Ég sá ekki myndirnar af þessu. Dómarinn og VAR eru þarna til að dæma þetta. Hausinn minn er einbeittur á hvað ég þarf að gera núna."

„Við undirbjuggum leikinn, áttum góðan fund, en náðum svo ekki að fylgja því á eftir. Við vorum ekki nógu sterkir. Ef þú vilt vera öflugur á miðjunni þá virðist vera sem svo að ég hafi ekki tekið réttar ákvarðanir," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner