
Stjarnan er þessa stundina að spila útileik við Þór/KA í næstsíðustu umferð tímabilsins í Bestu deild kvenna.
Stjarnan getur tekið annað sætið af Breiðabliki með sigri á Akureyri og er þremur mörkum yfir þegar þessi frétt er rituð undir lok fyrri hálfleiks.
Það vekur athygli að Audrey Rose Baldwin ver mark Stjörnunnar í leiknum en hún gekk í raðir félagsins á neyðarláni í dag. Audrey er markvörður HK í Lengjudeildinni og fyllir í skarðið fyrir Chanté Sandiford sem varði mark Stjörnunnar í sumar.
Audrey er 30 ára gömul og hefur leikið með Fylki, HK/Víking og Keflavík auk HK í íslenska boltanum. Hún var aðalmarkvörður HK í sumar er liðið endaði í fjórða sæti Lengjudeildarinnar.
Takist Stjörnustúlkum að sigra á Akureyri geta þær tryggt sér annað sæti Bestu deildarinnar með sigri á heimavelli gegn Keflavík í lokaumferðinni.