mán 26. september 2022 13:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtöl
„Þetta kom flatt upp á okkur og leikmannahópinn"
Jón Steindór og Rakel.
Jón Steindór og Rakel.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Fylki í sumar.
Úr leik hjá Fylki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvorugt þeirra skilur við félagið í illu.
Hvorugt þeirra skilur við félagið í illu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir hafnaði í sjötta sæti Lengjudeildarinnar í sumar.
Fylkir hafnaði í sjötta sæti Lengjudeildarinnar í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
 Jón Steindór Þorsteinsson.
Jón Steindór Þorsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rakel Logadóttir.
Rakel Logadóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Fylkis og FH í sumar.
Úr leik Fylkis og FH í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Fyrir síðustu helgi bárust nokkuð óvænt tíðindi þegar Fylkir tilkynnti um að Jón Steindór Þorsteinsson og Rakel Logadóttir hefðu látið af störfum sem þjálfarar kvennaliðs félagsins.

Rakel sagði síðar að það væri ekki rétt, þau hefðu einfaldlega verið rekin.

Fylkir, sem féll úr efstu deild á síðasta ári, hafnaði í sjötta sæti Lengjudeildarinnar í sumar. Það urðu miklar breytingar á liðinu en því var spáð fimmta sæti fyrir mót.

Undirritaður hefur rætt bæði við Jón Steindór og Rakel í kjölfarið á þessum fregnum. Þessi ákvörðun kom þeim báðum verulega á óvart.

„Fylkir ákvað að fara þessa leið. Ég er klárlega ekki fyrsti þjálfarinn sem er rekinn í þessum bransa. Þetta er bara þeirra ákvörðun og ég virði hana. Ég geng tiltölulega sáttur frá borði eftir viðburðarríkt ár," sagði Jón Steindór.

„Þetta kom á óvart, vissulega. Þetta virtist ekki vera í kortunum í sjálfu sér. Þetta kom flatt upp á okkur og leikmannahópinn. Ég vona að það komi gott fólk þarna inn því leikmannahópurinn á það svo sannarlega skilið."

Rakel tekur í sama streng. „Þetta kom mér á óvart, eins og Nonna. Við bjuggumst ekki við þessu. Þetta kom flatt upp á okkur. Við erum ekki að skilja í vondu eða neitt svoleiðis, en þetta kom á óvart."

„Þegar yfirlýsingin frá Fylki kom þá var það eins og við hefðum hætt sjálf. Mér fannst það ekki vera rétt og því ákvað ég að henda í lítið tíst. Það er samt ekkert slæmt á bak við það, ég vildi bara að þetta kæmi rétt fram."



„Þau verða að eiga þetta við sig og ég held áfram með mitt," sagði Nonni. „Þetta er búið að koma öllum á óvart miðað við þau skilaboð sem maður er búinn að fá síðustu daga. Það eru margir sem eru reiðari yfir þessu en ég í sjálfu sér. Ég er rólegur. Lífið er of stutt til þess að hata."

Voru með fimm, sex leikmenn á æfingum
Það voru miklar breytingar á liðinu frá síðustu leiktíð og voru fáir meistaraflokksleikmenn á æfingum í vetur.

„Við vorum ekki með marga leikmenn þegar við byrjuðum. Ég vissi að ég væri að fara inn í verkefni sem gæti verið flókið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég kem inn hjá félaginu þar sem þarf að taka til. Ég er ágætlega vanur því," segir Nonni.

„Við vorum ánægð með árangurinn að því leytinu til að við vorum með fimm, sex leikmenn á æfingum meirihlutann af vetrinum. Við vorum að fá leikmenn úr 2. og 3. flokki á æfingar með okkur. Þær fá dýrmæta reynslu um veturinn," segir Rakel og bætir við:

„Við töluðum örugglega við 50 leikmenn en það vildi enginn koma einhvern veginn. Þetta var mjög erfitt en smátt og smátt þá byrjar boltinn að rúlla. Svo lendum við líka í því að leikmenn fara til Bandaríkjanna, það eru meiðsli og við þurfum oftar en ekki að breyta. Það voru miklar breytingar en ég tel okkur hafa gert vel fyrir uppalda leikmenn Fylkis. Þær fengu dýrmæta reynslu og tókum miklum framförum. Ég held að við séum búin að leggja góðan grunn fyrir framtíðina, að leyfa þeim að spila."

Af hverju vildu leikmenn ekki koma í Fylki í vetur?

„Við vorum að falla niður og það voru leikmenn sem vildu frekar reyna að vera í Bestu deildinni. Það var yfirleitt þannig eða þá að leikmenn voru að hætta. Það voru alls konar ástæður," segir Rakel.

Utanumhaldið í kringum kvennaliðið mjög gott
Hvorugt þeirra skilur við félagið í illu. Rakel hrósar því hvernig hefur verið staðið að liðinu.

„Við vorum farin að leiða hugann að næsta tímabili. Það sem okkur langaði að gera var að bæta ofan á það starf sem við vorum að gera. Fyrir okkur var þetta tveggja til þriggja ára verkefni - að byggja liðið upp og koma því upp í Bestu deildina. Fyrir mína parta vil ég sjá þær fara upp á næsta ári. Við erum að búa til grunn, það þarf að gera það fyrst," segir Rakel.

„Ég vil samt taka fram að utanumhaldið í kringum kvennaliðið er rosalega gott í Fylki. Mér finnst að Fylkir eigi hrós skilið. Í öðrum félögum er það ábótavant, en það er ekki þannig í Fylki. Ég og Nonni fengum mjög góðan stuðning í kringum okkar starf."

„Við spiluðum ágætis varnarleik. Við lögðum áherslu á mikla vinnusemi og góðan varnarleik. Svo vorum við að vinna í því að skora en það gekk ekki nógu vel. Ef þú skorar ekki þá vinnurðu ekki leik, en þú getur gert jafntefli."

Rakel er ekki viss með framhaldið hjá sér. „Ég veit ekki hvort ég haldi áfram að þjálfa. Ég er í pásu núna og svo kemur í ljós hvað gerist. Ég er ekki alveg tilbúin að fara að stökkva á eitthvað akkúrat núna."

Nonni hefur verið í öðru starfi með þjálfuninni og telur mögulega að það spili inn í.

„Ég var hættur en var dreginn aftur á flot fyrir tveimur árum. Ég er í 100 prósent starfi með þessu og það er kannski ein af ástæðunum fyrir þessu; að þau telja að það sé erfitt að sinna meistaraflokknum með 100 prósent starfi. Það er alveg rétt hjá þeim - að fá einhvern sem getur lagt meiri vinnu í þetta. Vonandi finnst sá aðili," segir Nonni og bætir við:

„Ég ber engan kala til félagsins. Ég er uppalinn þarna og það eru engin leiðindi af minni hálfu. Mér er sagt að það sé ekki búið að finna neinn annan til að taka við. Þetta er ekki fegursti bransinn í bænum og ekki sá tryggasti heldur. Ég er ekki fyrsti né síðasti þjálfarinn sem fær sparkið. Það eru ekki allir sammála því sem þú ert að gera og þá er það bara þannig. Þú getur ekki gert öllum til geðs."

Fylkir er núna að vinna í því að finna nýjan þjálfara fyrir kvennalið sitt, en stjórn félagsins vildi ekki bæta neinu við fyrri yfirlýsingu þegar leitast var eftir því.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner