

'Maður getur huggað sig við alla þessa góðu hluti sem gengu upp, við höfum verið í töluverðum vexti sem félag og sem lið, sem er mjög jákvætt '

'Maður getur ekki haft allt, stundum fannst mér vanta smá reynslu í liðið, en ég myndi frekar vilja hafa liðið mitt svona heldur en einhverja gamla kalla sem þykjast vita allt'

'er í kálfanum á Eika. Það finnst mér bara sýna að Eiki er ekki að sparka í neinn, Eiki stendur í fótinn og hinn flækist í honum'
„Já, guð minn góður maður, þú getur ímyndað þér. Síðustu dagar hafa bara farið í það," segir Venni aðspurður hvort að hann finni fyrir eftirsjá og hvort hann hugsi hvort hann hefði getað gert eitthvað öðruvísi.
Venni, eða Sigurvin Ólafsson, er þjálfari Þróttar sem tókst ekki að tryggja sér sæti í Bestu deildinni á næsta tímabili. Þróttur tapaði í úrslitaleik gegn Þór um toppsæti deildarinnar og svo í umspilinu gegn HK.
Venni, eða Sigurvin Ólafsson, er þjálfari Þróttar sem tókst ekki að tryggja sér sæti í Bestu deildinni á næsta tímabili. Þróttur tapaði í úrslitaleik gegn Þór um toppsæti deildarinnar og svo í umspilinu gegn HK.
„Auðvitað er fullt af hlutum sem ég og við hefðum getað gert betur, það er augljóst, við náðum ekki alveg alla leið. En maður getur huggað sig við alla þessa góðu hluti sem gengu upp, við höfum verið í töluverðum vexti sem félag og sem lið, sem er mjög jákvætt og maður huggar sig aðeins við það. En maður má ekki vera of sáttur ef maður nær ekki alla leið, ég finn mikla undiröldu í hópnum og hjá sjálfum mér að bæta það sem upp á vantar og fara alla leið," segir Venni.
Er eitthvað sem þú getur sett fingur á að upp á vantar?
„Í rauninni ekki, ef horft er í tölurnar og þróun mótsins þá bentu tölurnar einhvern veginn til þess að við hefðum gefið eftir á úrslitastundu. Ég er ekkert endilega sammála því, mér fannst frammistaðan í leikjunum sem töpuðust vera góð, ekki frábær frammistaða en ekki léleg. Mér fannst enginn hafa farið á taugum, við vorum 'underdogs', okkur var ekki spáð frábæru gengi og erum auðvitað verk í vinnslu. Það er auðvitað fullt af hlutum sem ég hugsa núna sem ég hefði kannski gert aðeins öðruvísi, en í grunninn hefðum við gert þetta alveg eins, spilað okkar leik."
„Það var alltaf planið að leggja allt undir, vera hugrakkir og byggja á því sem hafði komið okkur í þessa stöðu, ekki breyta úr því þó að leikirnir væru stærri undir lokin. Mér fannst það alveg ganga upp, markmiðið okkar er að halda vel í boltann og byggja okkar sóknarleik upp þannig - við gerðum það í öllum þessum leikjum. Við vorum meira með boltann í öllum fjórum tapleikjunum undir lokin og búum að mínu mati til nógu mörg færi til að vinna alla þessa leiki. Við vorum klaufar og að einhverju leyti óheppnir á úrslitastundunum. Það er markmiðið að verða það góðir að hreinlega geta ekki misst af svona sénsum á grundvelli óheppni, dómaramistaka eða einstaka klaufaskaps. Ég er ósáttur við ýmsar ákvarðanir dómaranna í sumum af þessum leikjum, en þegar uppi er staðið skiptir það engu máli, þeir gera mistök eins og allir og við þurfum að vera nógu góðir til að það hafi ekki áhrif."
Dómarinn hefur alltaf rétt fyrir sér
Venni var ekki sáttur við vítaspyrnudóminn í lokaleiknum gegn HK, HK fékk víti snemma leiks eftir að Dagur Orri Garðarsson fór niður í vítateig HK. Ertu búinn að sjá þetta atvik aftur og sjá ljósmyndir?
„Já. Aftur, ég ætla ekki að fara kenna dómaranum um þetta, en mér fannst þetta ekki vítaspyrna. Það er einhver ljósmynd til þar sem fóturinn á Degi er í kálfanum á Eika. Það finnst mér bara sýna að Eiki er ekki að sparka í neinn, Eiki stendur í fótinn og hinn flækist í honum. Dómarinn dæmir víti á það og að mínu mati var það röng ákvörðun, en eitthvað sem ég þarf að lifa við. Ég veit að dómarinn var ekki að reyna dæma vitlaust viljandi, hann hélt þetta væri víti og þá er það eiginlega bara rétt. Dómarinn hefur alltaf rétt fyrir sér, líka þegar hann hefur rangt fyrir sér."
Frábært fyrir mig sem þjálfara
Þróttur er með ungt lið, hvernig er að þjálfa þessa stráka?
„Það eru ákveðin forréttindi og lúxus fyrir mig. Það gleður mig mikið að hafa svona unga og efnilega stráka sem eru virkilega viljugir til þess að bæta sig. Þetta eru svampar sem drekka í sig góð ráð og eru til í að gera allt sem þeir geta til að verða betri. Það er frábært fyrir mig sem þjálfara að vinna með svoleiðis hópi. Maður getur ekki haft allt, stundum fannst mér vanta smá reynslu í liðið, en ég myndi frekar vilja hafa það svona heldur en einhverja gamla kalla sem þykjast vita allt."
Trúir á karma og örlögin
Það var umræða um það að í leiknum gegn HK í 21. umferðinni hafi margir leikmenn Þróttar verið að passa sig að fá ekki spjald þar sem þeir hafi verið einu gulu spjaldi frá leikbanni í lokaumferðinni.
„Ég lagði þá línu og sagði við þá aftur og aftur að þeir færu bara í bann þegar þeir færu í bann, ættu ekki að spá í spjöldum. Þeir ættu að spila sinn leik og ef þeir fengju sitt fjórða eða sjöunda spjald þá færu þeir bara í bann og allt í lagi, við erum með fínan hóp. Við vorum aldrei að spá í því að taka út einhver spjöld eða velja leiki til að fara í bann. Hvort að það hafi læðst í undirmeðvitundina á einhverjum leikmönnum að ef þeir fengju spjald gegn HK þá myndu þeir missa af lokaleiknum gegn Þór, mér fannst það ekki og það voru alls ekki skilaboðin. Ég trúi bara á karma og örlögin, þú ferð bara í bann þegar þú ferð í bann. Það sýnir sig bara, þetta var hálf klaufalegt í Njarðvík að setja mann viljandi í bann, það kom ekki vel út."
Hlýtur að hafa gleymst
En hvað finnst honum um að spjöldin fari með inn í umspilið, fyrir utan það að þeir sem hafa fengið þrjú spjöld eða færri fá eitt spjald frádregið fyrir umspilið.
„Mér finnst ekkert að reglunni, þetta gildir sama fyrir alla. Mótið lengist um 2-3 leiki fyrir sum lið og ef það þýðir að einhverjir fari í bann þá bara gerist það. Mér finnst þetta ágætt fyrirkomulag að það detti út eitt spjald, mér finnst samt að það hefði líka mátt gera það fyrir þá sem eru með sex spjöld líka, það hlýtur eiginlega bara að hafa gleymst. Þá hefði þetta verið jafnt fyrir alla, þá væri eina hættan að fá tvö gul í undanúrslitaleikjunum, sem er bara allt í lagi," segir Venni.
Athugasemdir