Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   lau 26. nóvember 2022 13:07
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Guardian 
Skoski kletturinn í vörn Ástralíu - Skartar nýjum húðflúrum í Katar
Harry Souttar í nærmynd
Harry Souttar í Doha.
Harry Souttar í Doha.
Mynd: Getty Images
Souttar hefur skorað sex mörk fyrir Ástrala.
Souttar hefur skorað sex mörk fyrir Ástrala.
Mynd: Getty Images
Hann er harður í horn að taka.
Hann er harður í horn að taka.
Mynd: Getty Images
Hinn stóri og stæðilegi Harry Souttar átti frábæran leik í vörn Ástralíu sem vann 1-0 sigur gegn Túnis í fyrsta leik dagsins á HM. Hann stöðvaði ófáar sóknir andstæðingana og var réttur maður á réttum stað trekk í trekk.

Souttar er 24 ára leikmaður Stoke City á Englandi og fæddist í Aberdeen í Skotlandi. Hann hefur í rauninni aldrei búið í Ástralíu en móðir hans fæddist í landinu og það gerði hann gjaldgengan fyrir þjóðina.

Graham Arnold landsliðsþjálfari Ástralíu var með augastað á Souttar sem lék fyrir yngri landslið Skotlands. Arnold fékk hann til að spila fyrir U23 ára landslið þjóðarinnar áður en hann lék sinn fyrsta A-landsleik í október 2019 og skoraði tvö mörk í 5-0 sigri gegn Nepal í undankeppni HM.

Vopn í föstum leikatriðum
Souttar hefur verið baneitraður fyrir Ástralíu í föstum leikatriðum og er með sex mörk í tíu landsleikjum.

„Föst leikatriði geta verið öflugt vopn ef þú ert með það sem þarf. Við erum með frábæra spyrnumenn eins og Aziz Behich. Ég hef skorað mörk gegn landsliðum sem eru með lága meðalhæð en það yrði draumur að ná að skora á HM," segir Souttar.

Í nóvember í fyrra meiddist Souttar illa, hann sleit liðbönd í landsleik. Þegar Ástralía tryggði sér sæti á HM var hann ákveðinn í að ná bata sem fyrst til að geta tekið þátt í mótinu. Það segir sitt um mikilvægi hans í hópnum að meiddur var honum flogið í þyðingarmikinn leik gegn Perú bara til að hann gæti sýnt liðsfélögunum stuðning í klefanum.

Souttar vann kapphlaupið við tímann og lék sinn fyrsta leik á þessu ári þann 8. nóvember síðastliðinn. Degi eftir að hann var valinn í ástralska hópinn fyrir HM.

Spilar í minningu bróður síns
Eldri bróðir hans, Aaron, lést í ágúst aðeins 42 ára að aldri. Hann var hæfileikaríkur golfari á sínum tíma en lést eftir að hafa þjáðst af MND sjúkdómnum.

Souttar skartar tveimur nýjum húðflúrum á HM í Katar, annað þeirra er til minningar um Aaron.

„Bróðir minn lést fyrir nokkrum mánuðum og ég fékk mér húðflúr á handlegginn til að minna mig á það á hverjum degi hversu mikill snilldar karakter hann var," segir Souttar.

Hitt húðflúrið er á kálfanum og er af skjaldarmerki Ástralíu ásamt tölunni 606, Souttar er 606. leikmaðurinn sem spilar fyrir ástralska landsliðið.

Vill spila í ensku úrvalsdeildinni
Áður en Souttar meiddist var hann orðaður við félög í ensku úrvalsdeidlinni. Stoke er í sautjánda sæti Championship-deildarinnar en ljóst er að félög í efstu deild eru að fylgjast með honum á HM. Hann heillaði með frammistöðu sinni í dag.

„Þegar ég er að spila get ég ekki hugsað út í það hvort félög séu að fylgjast með mér. Auðvitað er alltaf gaman að fá hrós en maður er alltaf einum leik frá því að fá gagnrýni. Svo þessi umræða skiptir mig engu mál," segir hinn jarðbundni Souttar.


Athugasemdir
banner
banner
banner