Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 27. febrúar 2020 22:55
Aksentije Milisic
Solskjær: Vissi ekki hvort ég yrði lifandi næst þegar Fred myndi skora
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, var mjög sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld. United sigraði Club Brugge með fimm mörkum gegn engu og komst áfram í Evrópudeildinni. Fred gerði tvö mörk í leiknum.

Simon Deli, varnarmaður Club Brugge, fékk beint rautt spjald fyrir að verja knöttinn með höndinni í fyrri hálfleik og átti United ekki í vandræðum með Brugge eftir það og vann stórsigur.

„Ég var ekki viss hvort ég yrði enn á lífi þegar Fred myndi skora næst! Hann á svo margar marktilraunir og ég var búinn að vera grínast aðeins í honum," sagði Ole léttur.

„Ég er ánægður fyrir hönd allra. Það eru margir leikmenn að bæta sig hjá okkur. McTominay er kominn til baka, það er frábært. Við erum á þessum hluta tímabilsins þar sem við þurfum að rótera liðinu töluvert. Þegar þú spilar svona og skorar mörg mörk, þá er það frábært."

„Við spiluðum skemmtilegan bolta. Ein til tvær snertingar, hlaup án bolta og með mikið sjálfstraust. Það hjálpaði auðvitað að þeir fengu rautt spjald en oft er erfitt að opna þannig lið sem eru með alla leikmenn í kringum vítateiginn."

United mætir Everton á útivelli í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur.
Athugasemdir
banner
banner
banner