Arsenal, Newcastle United og Tottenham eru öll að fylgjast með Radu Dragusin, leikmanni Genoa á Ítalíu.
Dragusin er 21 árs gamall miðvörður og kemur frá Rúmeníu en hann hefur átt gott tímabil til þessa.
Hann var á mála hjá Juventus áður en Genoa fékk hann á láni fyrir síðustu leiktíð. Félagið fékk hann alfarið yfir í janúar.
Samkvæmt umboðsmanni leikmannsins eru þrjú ensk úrvalsdeildarfélög að ræða við hann um Dragusin.
„Ég hef verið í Lundúnum í einhvern tíma og átt nánast því vikulega fundi með mikilvægum félögum. Við erum að færast nær, en ég hef talað við Newcastle, Arsenal og Tottenham. Ég hef átt í viðræðum við þau. Það eru líka önnur félög að spyrjast fyrir um hann,“ sagði umboðsmaður hans.
Stór félög hafa áhuga á nokkrum leikmönnum Genoa, þar á meðal Alberti Guðmundssyni. Juventus, Napoli og Milan hafa öll verið að skoða hann og þá er ítalski landsliðsframherjinn Mateo Retegui og danski miðjumaðurinn Morten Frendrup einnig undir smásjá stórliða.
Athugasemdir