FH vann 2-0 sigur á Vestra í 15. umferð Bestu deildar karla á Kerecis-vellinum á Ísafirði í dag. Vestri bíður enn eftir fyrsta heimasigri tímabilsins.
Fyrri hálfleikurinn bauð ekki upp á mörg færi. FH-ingar voru með ágætis tök fyrstu mínúturnar en heimamenn unnu sig inn í leikinn.
Heimamenn voru hársbreidd frá marki á 23. mínútu er Benedikt Warén kom boltanum fyrir markið. Sergine Fall var klár í að pota honum í netið en þá kom Ólafur Guðmundsson og bjargaði á síðustu stundu.
Vestri var líklegri aðilinn til að skora en nýtti ekki stöður sínar nægilega vel. Markalaust í hálfleik en það færðist aðeins meira fjör í leikinn í þeim síðari.
FH-ingar mættu sterkari eftir hlé og voru farnir að banka hressilega á dyrnar en þó vantaði eitthvað upp á.
Færin voru á báða bóga síðustu tuttugu mínúturnar. FH-ingar voru nálægt því á 73. mínútu er Kjartan Kári Halldórsson kom boltanum í teiginn. Sigurður BJartur Hallsson tók síðan skotið en William Eskelinen varði meistaralega í markinu.
Ibrahima Balde átti þá bestu tilraun Vestra stuttu síðar er hann reyndi skot rétt fyrir utan vítateiginn en Sindri Kristinn Ólafsson var vandanum vaxvinn og náði að verja boltann í slá. Frábær varsla.
Mörkin létu bíða eftir sér. Á 82. mínútu fengu FH-ingar hornspyrnu sem Böðvar Böðvarsson kom inn í teiginn og á Ólaf Guðmunds sem var einn og óvaldaður fyrir framan markið og kom boltanum í netið.
FH-ingar héldu áfram að sækja í leit að öðru marki og kom það seint í uppbótartíma. Vuk Oskar Dimitrijevic fékk að dansa með boltann fyrir framan Morten Hansen áður en hann tók laust skot sem Eskelinen náði ekki að verja. Boltinn lak í netið og gerði þar með út um leikinn.
Svekkjandi fyrir heimamenn sem áttu fína kafla í leiknum. FH-ingar fögnuðu baráttusigri og eru nú með 28 stig í 4. sæti, jafnmörg og Valur sem er í sætinu fyrir ofan. Vestri er áfram í næst neðsta sæti með 12 stig.
Stöðutaflan

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir