Alonso mikill aðdáandi Zubimendi - Funda í þriðja sinn um Fernandes - Ten Hag að taka við Leverkusen?
   sun 28. júlí 2024 19:08
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Stjörnumenn refsuðu Skagamönnum
Baldur Logi Guðlaugsson jafnaði leikinn með geggjuðu marki
Baldur Logi Guðlaugsson jafnaði leikinn með geggjuðu marki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Jónsson er kominn með þrettán deildarmörk
Viktor Jónsson er kominn með þrettán deildarmörk
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Örvar Eggertsson gerði annað mark Stjörnumanna
Örvar Eggertsson gerði annað mark Stjörnumanna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA 1 - 3 Stjarnan
1-0 Viktor Jónsson ('45 )
1-1 Baldur Logi Guðlaugsson ('56 )
1-2 Örvar Eggertsson ('80 )
1-3 Jón Hrafn Barkarson ('90 )
Lestu um leikinn

Stjarnan vann annan leik sinn í röð er liðið lagði ÍA að velli, 3-1, í 15. umferð Bestu deildar karla á ELKEM-vellinum á Akranesi í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð rólegur. Stjörnumenn voru með ágætis stjórn á leiknum og sköpuðu sér færi en voru klaufar að nýta ekki.

Viktor Jónsson, markahæsti maður deildarinnar, gerði sitt þrettánda mark undir lok hálfleiksins. Johannes Vall tók aukaspyrnu sem rúllaði alla leið á Viktor sem skoraði. Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, var brjálaður og vildi fá dæmda rangstöðu, en fékk ekki.

Tvö fín færi komu á undan því. Hinrik Harðarson átti skalla í stöng og þá fékk Adolf Daði Birgisson fínasta séns hinum megin á vellinum en náði ekki að pota boltanum í netið.

Skagamenn mættu ferskir inn í síðari hálfleik og fengu þrjú úrvalsfæri til að gera út um leikinn. Marko Vardic fékk gott færi við vítateigsendann eftir að Stjörnumenn hreinsuðu fyrirgjöf Jóns Gísla Eyland Gíslasonar boltann frá, en skot Vardic fór í varnarmann og framhjá.

Næst fékk Viktor tvö dauðafæri til að skora. Vall átti sendingu á Viktor sem var dauðafrír en setti boltann rétt framhjá og þá var síðara færið keimlíkt en þá náði Hinrik að snúa af sér varnarmann og leggja boltann á Viktor sem brást aftur bogalistin.

Gestirnir refsuðu strax tveimur mínútum síðar. Baldur Logi Guðlaugsson lét bara vaða vel fyrir utan teiginn. Skotið var ekki fast en mjög hnitmiðað niður í horni á meðan Árni Marinó Einarsson stóð hreyfingarlaus í markinu.

Tíu mínútum fyrir leikslok gerði Örvar Eggertsson sigurmarkið fyrir Stjörnuna. Róbert Frosti Þorkelsson fann Örvar hægra megin, sem keyrði inn í teiginn og tók fast skot í fjærhornið og inn. Árni hefði líklega getað gert betur í markinu.

Skagamenn fengu dauðafæri til að jafna á 87. mínútu. Jón Gísli með glæsilega fyrirgjöf á dauðafrían Hinrik sem skallaði boltann beint í fangið á Árna.

Undir lok leiks gerðu Stjörnumenn út um leikinn. Jón Hrafn Barkarson kom inn á á 69. mínútu í sínum fyrsta leik fyrir meistaraflokk Stjörnunnar og þakkaði fyrir sig með marki. Emil Atlason var með boltann og sá að Jón var aleinn vinstra megin. Boltinn kom fyrir Jón sem kláraði snyrtilega í fjærhornið.

Jón spilaði með yngri flokkum Stjörnunnar en fór í Leikni árið 2021. Hann snéri aftur til félagsins á dögunum og var ekki lengi að láta til sín taka.

Stjarnan refsaði ÍA hressilega. Skagamenn komu sér í þrjú dauðafæri er liðið var einu marki fyrir snemma í síðari hálfleiknum, en nýttu ekki. Sigur Stjörnunnar er þó verðskuldaður, liðið var með öl völd á leiknum og tókst að klára þetta í restina.

Stjörnumenn vinna annan leikinn í röð og eru nú með 23 stig í 6. sæti, einu stigi á eftir ÍA sem er í 5. sæti.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner