Liverpool hafnaði 11,8 milljóna punda tilboði franska félagsins Marseille í japanska landsliðsmanninn Wataru Endo. Þetta kemur fram í Athletic.
Marseille lagði fram tilboðið á dögunum en Liverpool var ekki lengi að neita því.
Óvíst er hvort Marseille ætli sér að leggja fram annað tilboð í miðjumanninn en Liverpool er ekki að reyna að losa sig við leikmanninn.
Tímasetning tilboðsins hentar þá Liverpool illa. Liverpool hefur ekkert gert á markaðnum í sumar og telur félagið þá að það gæti reynst erfitt að finna mann í hans stað.
Samkvæmt Athletic eru félög í Þýskalandi einnig áhugasöm um Endo.
Þessi 31 árs gamli miðjumaður kom til Liverpool frá Stuttgart á síðasta ári.
Hann spilaði stóra rullu á fyrsta tímabili sínu. Alls lék hann 44 leiki, skoraði þrjú mörk og gaf eina stoðsendingu.
Athugasemdir