Landsliðsmaðurinn Orri Steinn Óskarsson skoraði annan deildarleikinn í röð er FCK vann 3-2 endurkomusigur á AGF í 2. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.
Orri fór mikinn á síðustu leiktíð og byrjar þessa með stæl. FCK lenti að vísu undir í tvígang í dag.
Mikael Neville Anderson lagði upp fyrra mark AGF á 13. mínútu fyrir Tobias Bech en Diogo Goncalves svaraði með vítaspyrnumarki fjórtán mínútum síðar.
Mads Madsen kom AGF aftur í forystu á 32. mínútu og tókst gestunum að halda það út í hálfleik.
Í þeim síðari komu FCK-menn sterkir til leiks. Orri Steinn gerði annað deildarmark. Kevin Diks átti langan bolta á Orra sem lyfti boltanum yfir markvörð AGF áður en hann lagði hann í netið en markið má sjá hér fyrir neðan.
Goal: Orri Steinn Óskarsson | Copenhagen 2-2 AGFpic.twitter.com/8J23pmyVZH
— PushGoals (@PushGoals) July 28, 2024
Þetta mark kom á 73. mínútu og aðeins fimm mínútum síðar skoraði Thomas Delaney sigurmarkið fyrir FCK með skalla eftir fyrirgjöf.
Tveir sigrar af tveimur mögulegum hjá FCK á meðan AGF er með aðeins eitt stig.
Rúnar Alex Rúnarsson er áfram á bekknum hjá FCK og bíður enn eftir tækifærinu en hann hefur ekki spilað mótsleik síðan hann kom frá Arsenal í byrjun ársins.
Andri Fannar Baldursson var í byrjunarliði Elfsborg sem tapaði fyrir Djurgården, 2-1, í sænsku úrvalsdeildinni. Andri fór af velli á 84. mínútu, en Eggert Aron Guðmundsson var ónotaður varamaður.
Elfsborg er í 6. sæti með 25 stig og undirbýr sig nú fyrir seinni leikinn gegn Sheriff Tiraspol í forkeppni Evrópudeildarinnar, en Sheriff vann fyrri leikinn, 1-0, í Moldóvu.
Athugasemdir