Erkifjendur á eftir Branthwaite - Atlético á eftir Greenwood - Tekur Potter við Man Utd?
   sun 28. september 2025 20:51
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Tíu leikmenn Milan unnu meistarana
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Milan 2 - 1 Napoli
1-0 Alexis Saelemaekers ('3 )
2-0 Christian Pulisic ('31 )
2-1 Kevin De Bruyne ('60 , víti)
Rautt spjald: Pervis Estupinan, Milan ('57)

Nokkrar fyrrum stjörnur úr ensku úrvalsdeildinni mættu til leiks þegar AC Milan tók á móti Ítalíumeisturum Napoli í stórleik helgarinnar í efstu deild ítalska boltans í kvöld.

Heimamenn í Milan fóru gríðarlega vel af stað og tóku forystuna snemma leiks þegar Alexis Saelemaekers skoraði eftir frábæran undirbúning frá Christian Pulisic, sem hefur verið gjörsamlega óstöðvandi á upphafi nýs tímabils.

Pulisic tvöfaldaði sjálfur forystuna svo staðan var 2-0 í leikhlé. Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn en heimamenn sköpuðu sér betri færi sem urðu að mörkum, þar sem gæðin í Pulisic gerðu herslumuninn.

Napoli tók öll völd á vellinum í síðari hálfleik og fékk dæmda vítaspyrnu á 57. mínútu þegar Pervis Estupinan reif Giovanni Di Lorenzo niður innan teigs. Estupinan var ekki að horfa á boltann og rændi upplögðu marktækifæri af Di Lorenzo, svo hann fékk að líta beint rautt spjald.

Kevin De Bruyne brást ekki bogalistin af vítapunktinum en Antonio Conte þjálfari tók þá umdeildu ákvörðun að skipta miðjumanninum sóknarsinnaða af velli á 72. mínútu.

Napoli sótti en tókst ekki að sækja sér jöfnunarmark gegn tíu andstæðingum. David Neres átti bestu marktilraunina, en það vantaði upp á gæðin í sóknarleiknum þar sem De Bruyne var sestur á bekkinn. Belginn virtist ekki ánægður með að hafa verið skipt af velli.

Milan hefur farið vel af stað undir stjórn Max Allegri og deilir toppsætinu með Napoli og AS Roma. Liðin þrjú eiga 12 stig eftir 5 umferðir.

Eini tapleikur Milan kom í fyrstu umferð, á heimavelli gegn nýliðum Cremonese.
Athugasemdir
banner
banner