Síðustu leikjum dagsins er lokið hjá Íslendingaliðunum víðs vegar um Evrópu, þar sem Hákon Arnar Haraldsson og Sverrir Ingi Ingason voru í byrjunarliðum.
Hákon Arnar lék allan leikinn er Lille tapaði á heimavelli gegn Lyon í efstu deild franska boltans.
Lille var sterkari aðilinn en lenti undir í fyrri hálfleik og tókst ekki að finna jöfnunarmark. Tyler Morton, sem Lyon keypti úr röðum Liverpool í sumar, skoraði eina mark leiksins. Hann er að reynast lykilmaður í áhugaverðu liði Lyon, en argentínski bakvörðurinn Nicolás Tagliafico átti stoðsendinguna.
Þetta er annar tapleikurinn í röð hjá Lille og er liðið með 10 stig eftir 6 umferðir, fimm stigum á eftir Lyon.
Sverrir Ingi Ingason lék þá allan leikinn er Panathinaikos vann dramatískan sigur gegn Panetolikos í efstu deild í Grikklandi.
Panathinaikos hefur farið illa af stað á nýju tímabili og er Sverrir Ingi kominn í góða stöðu í erfiðri baráttu um byrjunarliðssæti í hjarta varnarinnar.
Panathinaikos er aðeins með fimm stig eftir fjórar fyrstu umferðirnar á nýju deildartímabili. Þetta er fyrsti sigur liðsins.
Tete, fyrrum leikmaður Leicester, Lyon, Galatasaray og Shakhtar Donetsk, skoraði jöfnunarmarkið fyrir Panathinaikos áður en Alexander Jeremejeff gerði sigurmarkið.
Að lokum sat Þórir Jóhann Helgason allan tímann á bekknum er Lecce náði í frábært stig á heimavelli gegn Bologna í efstu deild á Ítalíu.
Lecce tók forystuna en lenti svo undir og gerði jöfnunarmark í uppbótartíma til að bjarga stigi. Þetta er aðeins annað stig Lecce eftir fimm umferðir af deildartímabilinu.
Lille 0 - 1 Lyon
0-1 Tyler Morton ('13)
Panetolikos 1 - 2 Panathinaikos
1-0 Jorge Aguirre ('18, víti)
1-1 Tete ('57)
1-2 Alexander Jeremejeff ('95)
Lecce 2 - 2 Bologna
1-0 Lassana Coulibaly ('13)
1-1 Riccardo Orsolini ('45+1, víti)
1-2 Jens Odgaard ('71)
2-2 Francesco Camarda ('93)
Athugasemdir