Erkifjendur á eftir Branthwaite - Atlético á eftir Greenwood - Tekur Potter við Man Utd?
   sun 28. september 2025 17:34
Ívan Guðjón Baldursson
England: Dramatískur endurkomusigur hjá Arsenal
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Newcastle 1 - 2 Arsenal
1-0 Nick Woltemade ('34)
1-1 Mikel Merino ('84)
1-2 Gabriel ('96)

Newcastle United tók á móti Arsenal í seinni leik dagsins og stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni og bauð þessi slagur upp á mikla skemmtun.

Arsenal var talsvert sterkari aðilinn en tókst ekki að nýta færin sín. Viktor Gyökeres hélt að hann hefði fengið dæmda vítaspyrnu eftir að Jarred Gillett dómari flautaði. Hann ræddi þó við VAR-herbergið og var sendur í skjáinn, þar sem hann sneri ákvörðun sinni við. Þetta vakti ekki hrifningu hjá Mikel Arteta þjálfara og leikmönnum Arsenal.

Nick Pope felldi Gyökeres augljóslega innan vítateigs, en hann náði örlítilli snertingu á boltann fyrst. Þess vegna hætti Gillett við vítaspyrnudóminn.

Nick Woltemade náði forystunni fyrir Newcastle með góðum skalla eftir hornspyrnu en Gabriel lagðist alltof auðveldlega í jörðina og vildi fá dæmda bakhrindingu, sem var réttilega ekki dæmd. Gabriel gaf Woltemade frían skalla og tóku heimamenn forystuna, gegn gangi leiksins.

Leandro Trossard átti skot í stöng og varði Nick Pope meistaralega frá Eberechi Eze fyrir leikhlé. Arsenal var áfram sterkara liðið í síðari hálfleik en tókst ekki að koma boltanum í netið fyrr en á lokakaflanum.

Arteta gerði nokkrar skiptingar og kom Mikel Merino meðal annars inn af bekknum. Hann átti eftir að reynast mikilvægur því hann jafnaði metin með laglegu skoti á 84. mínútu og áfram sótti Arsenal í uppbótartímanum.

Lærisveinar Arteta fengu nokkrar hornspyrnu og á lokasekúndunum bætti Gabriel upp fyrir fyrri mistök sín með því að skalla hornspyrnu frá Martin Ödegaard, sem kom einnig inn af bekknum í síðari hálfleik, í netið.

Gríðarlega dramatískt sigurmark fyrir Arsenal sem gæti reynst afar dýrmætt í toppbaráttunni. Liðið er núna með 13 stig eftir 6 umferðir, tveimur stigum á eftir toppliði og Englandsmeisturum Liverpool.

Newcastle er aðeins komið með 6 stig.
Athugasemdir
banner
banner