Portúgalski þjálfarinn Nuno Espirito Santo er að taka við West Ham United aðeins nokkrum dögum eftir að hafa verið látinn taka poka sinn hjá Nottingham Forest. Þetta kemur fram á BBC.
West Ham tilkynnti í morgun að félagið væri búið að segja skilið við Graham Potter sem hafði ekki tekist að rífa liðið upp úr lægð á þeim níu mánuðum sem hann var við stjórnvölinn.
Enska úrvalsdeildarfélagið hefur átt í viðræðum við Nuno bak við tjöldin og er nú gert ráð fyrir að samkomulag verði í höfn fyrir leik liðsins gegn Everton á mánudag.
BBC segir að viðræður hafi gengið vel við Nuno sem er að taka við fjórða úrvalsdeildarliðinu á ferli sínum.
Hann var síðast hjá Nottingham Forest en þar náði hann ótrúlegum árangri og kom liðinu aftur í Evrópukeppni í fyrsta sinn í 30 ár, en hann var rekinn frá félaginu vegna ágreinings við Evangelos Marinakis, eiganda félagsins.
Áður stýrði Nuno liði Wolves við góðan orðstír ásamt því að hafa verið við stjórnvölinn hjá Tottenham Hotspur, en entist aðeins í fjóra mánuði áður en hann var rekinn.
Samkvæmt heimildum enskra miðla mun Nuno stýra sinni fyrstu æfingu hjá West Ham í dag.
West Ham er í næst neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með þrjú stig eftir fimm leiki.
Athugasemdir