Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA var svekktur með tap sinna manna í Mosfellsbænum fyrr í kvöld, en KA menn spiluðu ágætis leik en mistök og slakur 6 mínútna kafli snéri leiknum algjörlega gegn þeim sem á endanum kostaði þá sigurinn.
Lestu um leikinn: Afturelding 3 - 2 KA
„Í fyrri hálfleik fannst mér við vera með öll tök á leiknum og mér fannst við geta gert 10% meira en við löbbum inn í hálfleik marki yfir og hefðum hæglega getað verið þremur mörkum yfir, skorum flott mark, Birnir kemst í góða stöðu og skýtur í stöng og Ingimar klúðrar dauðafæri á 1. mínútu.''
„Mér fannst seinni hálfleikurinn byrja mjög flott, við erum með allt control á leiknum en svo á einhverjum 6 mínútna kafla fáum við á okkur þrjú mörk, beint úr horni og skyndisóknir. Við vorum að verjast því mjög vel en svo koma tvö moment og þeir refsa mjög vel.''
Tönning fær á sig mark beint úr horni og hefði mátt gera betur í jöfnunarmarkinu líka að mati undirritaðs.
„Furðulegt hvernig boltinn fer inn beint úr horninu. Ég ætla ekki að henda Tönning undir rútuna, ég þarf að sjá þetta betur en mér finnst við líka bara gefa þeim skyndisóknir og ekki verjast rétt áður en þeir komast í færið.''
Hallgrímur fer yfir margt fleira í spilaranum hér að ofan, meðal annars slaka byrjun á mótinu og stöðuna á Rasheed og Steinþóri Má markvörðum liðsins.