
Diljá Ýr Zomers og María Catharina Ólafsdóttir Gros voru á skotskónum í Evrópuboltanum í dag, en báðar voru í tapliði. Íslendingalið Vålerenga komst enn einu sinni í bikarúrslit í Noregi.
Diljá skoraði eina mark Brann í 2-1 tapi gegn Íslendingaliði Vålerenga í Osló í undanúrslitum norska bikarsins.
Mark hennar kom á annarri mínútu í síðari hálfleik en það var það þriðja hjá henni frá því hún kom frá Leuven í Belgíu.
Sædís Rún Heiðarsdóttir byrjaði hjá Vålerenga og þá kom Arna Eiríksdóttir inn af bekknum í síðari hálfleik. Vålerenga á möguleika á að því að verja bikarmeistaratitilinn en liðið mætir Rosenborg þann 23. nóvember. Þriðja árið í röð þar sem Vålerenga spilar til úrslita.
María Catharina skoraði annað mark Linköping í 3-2 tapi gegn Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni. María er komin með sex deildarmörk á tímabilinu á annars slöku tímabili Linköping sem situr í næst neðsta sæti með 12 stig.
Hildur Antonsdóttir kom inn af bekknum hjá Madrid CFF sem vann 2-1 sigur á Deportivo La Coruna. Madrid er í 6. sæti með 8 stig eftir fimm leiki.
Athugasemdir