Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 29. febrúar 2024 09:39
Hafliði Breiðfjörð
Jörundur Áki tímabundið framkvæmdastjóri - Ingi og Helga varaformenn
Jörundur Áki Sveinsson tekur tímabundið við stöðu framkvæmdastjóra. Hann er sviðsstjóri knattspyrnusviðs sambandsins.
Jörundur Áki Sveinsson tekur tímabundið við stöðu framkvæmdastjóra. Hann er sviðsstjóri knattspyrnusviðs sambandsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helga Helgadóttir er fyrsti varaformaður KSÍ.
Helga Helgadóttir er fyrsti varaformaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjórn KSÍ fundaði í gær í fyrsta sinn síðan Þorvaldur Örlygsson var kjörinn formaður á ársþingi sambandsins á laugardaginn en við það tilefni voru líka kjörnir nýir stjórnarmenn.

Á fundinum í gær var ákveðið að Jörundur Áki Sveinsson verði ráðinn tímabundið framkvæmdastjóri KSÍ á meðan leitað er að nýjum einstakling í þá stöðu. Jörundur Áki er sviðsstjóri kattspyrnusviðs eða það sem oftast hefur verið nefnt yfirmaður fótboltamála.

Klara Bjartmarz sem hefur gengt stöðunni undanfarin ár er að hætta um mánaðarmótin og frestur til að sækja um stöðuna rann út fyrr í vikunni.

Stjórnin ákvað í gær að framlengja umsóknarfrestingum um eina viku eða til og með 6. mars næstkomandi. Þetta er gert til að gefa svigrúm til að undirbúa ráðningarferlið sem best og skipaði stjórnin jafnframt ráðningarnefnd undir forystu formanns KSÍ til að meta allar umsóknir með hliðsjón af skorkorti.

Ráðningarnefnd mun síðan hafa umsjón með viðtölum við umsækjendur og að lokum gera tillögu um ráðningu til stjórnar. Frekari upplýsingar um umsóknarferlið má sjá á vef sambandsins.

Jörundi til aðstoðar verður sérstakt stjórnendateymi. Í því teymi verða Birkir Sveinsson mótastjóri, Bryndís Einarsdóttir fjármálastjóri og Ómar Smárason samskiptastjóri. Auk þess munu þau geta leitað til Klöru sér til ráðgjafar komi til þess.

Á fundinum í gær voru líka kjörnir varaformenn. Borghildur Sigurðardóttir og Sigfús Kárason hafa gengt því embætti undanfarin ár en hvorugt þeirra er áfram í stjórn.

Í þeirra stað koma Helga Helgadóttir sem fyrsti varaformaður og Ingi Sigurðsson sem annar varaformaður.
Athugasemdir
banner