KR 2 - 2 KA
1-0 Benoný Breki Andrésson ('19 )
1-1 Daníel Hafsteinsson ('59 )
1-2 Viðar Örn Kjartansson ('71 )
2-2 Finnur Tómas Pálmason ('94 )
Lestu um leikinn
1-0 Benoný Breki Andrésson ('19 )
1-1 Daníel Hafsteinsson ('59 )
1-2 Viðar Örn Kjartansson ('71 )
2-2 Finnur Tómas Pálmason ('94 )
Lestu um leikinn
KR-ingurinn Finnur Tómas Pálmason sá til þess að bjarga stigi fyrir KR er liðið gerði 2-2 jafntefli við KA í 15. umferð Bestu deildar karla á Meistaravöllum í kvöld. Mark hans kom á síðustu sekúndum uppbótartímans.
KR-ingar hafa ekki unnið deildarleik síðan í lok maí en það var útlit fyrir að það yrði breyting á því, alla vega miðað við frammistöðuna í fyrri hálfleik.
Benoný Breki Andrésson skoraði fyrir KR-inga á 19. mínútu. Luke Rae var með boltann á hægri vængnum, kom honum inn á Benoný sem skoraði úr þröngu færi.
Stefán Árni Geirsson fékk tvö góð færi til að bæta við en í bæði skiptin varði Steinþór Már Auðunsson í markinu.
KR-ingar fóru með 1-0 forystu inn í hálfleikinn og voru nálægt því að bæta við öðru í byrjun síðari. Heimamenn komust þrír á móti einum.
Benoný fann Aron Sigurðarson sem var kominn einn á móti markverði, en reyndi í staðinn að finna Eyþór Aron Wöhler. Sendingin var þó slök og rann færið út í sandinn.
Gestirnir fóru að vinna sig betur og betur inn í leikinn. Jöfnunarmarkið kom síðan á 59. mínútu. Ívar Örn Árnason átti langa sendingu fram og tókst Harley Willard einhvern veginn að halda boltanum í leik. Hann kom honum síðan fyrir á Daníel Hafsteinsson sem jafnaði metin.
Tólf mínútum síðar kom annað mark KA. Hallgrímur Mar Steingrímsson þræddi Viðar Örn Kjartansson í gegn sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir KA. Langþráð mark frá Viðari.
Willard gat gert út um leikinn nokkrum mínútum síðar en þá stangaði hann boltann í slá af stuttu færi. Illa farið með dauðafæri.
KR-ingar reyndu að bjarga stigi undir lok leiks. Benoný fékk flott færi á 86. mínútu en hamraði boltanum yfir.
Sóknarþungi heimamanna skilaði sér á endanum og það á síðustu sekúndum leiksins. Jóhannes Kristinn Bjarnason tók aukaspyrnu inn í teiginn, boltanum flikkað á Finn Tómas sem skallaði hann í netið af stuttu færi.
Gestirnir voru ósáttir með markið og kölluðu eftir rangstöðu, en það fékk að standa. Stuttu síðar var flautað til leiksloka, lokatölur 2-2.
KA er með 19 stig í 8. sæti deildarinnar en KR áfram í 9. sæti með 15 stig.
Stöðutaflan

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir