
Kanadíska kvennalandsliðið hefur verið á milli tannanna á fólki á Ólympíuleikunum en þó ekki fyrir spilamennsku sína heldur fyrir ólöglegt athæfi sem átti sér stað fyrir fyrsta leik.
Þrír aðilar úr þjálfarateymi Kanada brutu lög á leikunum er þeir aðilar sendu dróna yfir æfingu Nýja-Sjálands, með þeim tilgangi að komast að uppleggi liðsins.
Dróna var flogið yfir æfingasvæði Nýja-Sjálands og rannsókn leiddi í ljós að Joseph Lombardi leikgreinandi Kanada sendi skýrslu frá æfingunni til aðstoðarþjálfarans Jasmine Mander. Þeim hefur verið vísað burt af Ólympíuleikunum.
Beverly Priestman, þjálfari liðsins, steig í kjölfarið til hliðar fyrir leikinn sem Kanada vann, 2-1.
Kanadíska fótboltasambandið sparkaði Priestman tveimur sólarhringum síðar.
Áfrýjunarnefnd alþjóðafótboltasambandsins, FIFA, tók málið fyrir og komst að þeirri niðurstöðu að dæma Priestman, Lombardi og Mander í eins árs bann frá fótbolta og voru þá sex stig dregin af kanadíska landsliðinu á leikunum.
Liðið átti engan þátt í njósnunum og átti því undir högg að sækja, en það hefur ekki stoppað liðið. Það vann magnaðan og dramatískan 2-1 sigur á Frakklandi í annarri umferð riðlakeppninnar í gær þökk sé sigurmarki Vanessu Gilles á tólftu mínútu í uppbótartíma.
Kanada er því án stiga í 3. sæti riðilsins og á enn möguleika á að komast upp úr honum.
„Við erum ekki svindlarar! Við erum fáránlega góðir leikmenn og með fáránlega gott lið. Við sönnuðum það í dag,“ sagði Gilles í viðtali eftir leikinn.
Ef Kanada vinnur Kólumbíu í lokaumferðinni þá fer liðið áfram í 8-liða úrslit.
Athugasemdir