Það komu nokkrir Íslendingar við sögu í leikjum dagsins í deildum um Evrópu, þar sem Ísak Bergmann Jóhannesson var í byrjunarliði Fortuna Düsseldorf sem tapaði í toppbaráttu þýsku B-deildarinnar.
Ísak og félagar heimsóttu Hamborg í toppslag og töpuðu 1-0 gegn HSV, sem tekur yfir Dusseldorf og er komið með tveggja stiga forystu á toppinum. Dusseldorf er í öðru sæti með 14 stig eftir 8 umferðir.
Aron Sigurðarson var þá í byrjunarliði Horsens sem gerði markalaust jafntefli gegn Hilleröd í B-deild danska boltans. Horsens er þar í baráttu um að komast í umspil um sæti í efstu deild, með 17 stig eftir 11 umferðir.
Nóel Atli Arnórsson var ekki í hópi í flottum sigri AaB á útivelli gegn Vendsyssel. Álaborg trónir á toppi deildarinnar og er enn taplaust, með 27 stig.
Í B-deildinni í Belgíu spilaði Stefán Ingi Sigurðarson fyrstu 65 mínúturnar í sigri Patro Eisden gegn varaliði Standard Liege. Patro Eisden vann leikinn með sigurmarki undir lokin og er í öðru sæti deildarinnar með 14 stig úr 7 leikjum.
Að lokum lék Rúnar Þór Sigurgeirsson allan leikinn í sigri Willem II gegn Jong AZ í B-deild hollenska boltans. Kristian Nökkvi Hlynsson tók ekki þátt í tapleik Jong Ajax.
Willem II er með ellefu stig eftir sjö umferðir.
Hamburger SV 1 - 0 Fortuna Düsseldorf
Hilleröd 0 - 0 Horsens
Vendsyssel 1 - 3 Aalborg
St. Liege U23 0 - 1 Patro Eisden
Telstar 3 - 2 Jong Ajax