Arne Slot, stjóri Englandsmeistara Liverpool, var ósáttur við margt í 4-1 sigrinum á Barnsley í enska bikarnum í kvöld, en hann talaði um mistök Szoboszlai og var þá ekki ánægður með hvað það var mjótt á mununum í leiknum.
Liverpool komst í tveggja marka forystu og virtist ætla að sigla þessu örugglega heim.
Ein mistök frá Dominik Szoboszlai opnuðu leikinn og var það ekki fyrr en í lokin sem Liverpool tókst að klára C-deildarliðið.
„Ég var ánægður með mörkin sem við skoruðum og þetta voru mjög svo flott mörk. Mér fannst þetta samt mjög jafnt í of langan tíma því við gáfum mark frá okkur á þennan hátt í 2-0 og það gerði okkur erfitt fyrir þangað til það voru kannski 5-10 mínútur eftir. Þannig já þetta voru flott mörk, en við sköpuðum ekki nóg af færum miðað við hvað við vorum mikið með boltann,“ sagði Slot.
Szoboszlai gerði mjög undarleg mistök í stöðunni 2-0, en hann reyndi bakhælsspyrnu í átt að Giorgi Mamardashvili, markverði Liverpool, sem misheppnaðist og skoraði Adam Phillips í kjölfarið, en þetta kom Barnsley inn í leikinn.
„Þú átt ekki að gera þetta hvort sem það er í enska bikarnum, deildabikarnum, vináttuleik eða á æfingu. Þetta var skrítin ákvörðun og ég hef mína skoðun á þessu, en ég ætla að halda því fyrir mig og ræða þetta betur við Dom.“
Florian Wirtz kom inn af bekknum í síðari hálfleiknum og tókst að skora og leggja upp. Slot var ánægður með hans framlag.
„Ef þú kemur inn á í hálftíma, skorar, leggur upp og átt nokkur önnur góð augnablik þá getur þú klárlega sagt að hann hafi komið með eitthvað skapandi inn í liðið og það er nákvæmlega það sem við þurftum á að halda,“ sagði Slot eftir leik.
Liverpool mætir Brighton í 4. umferð bikarsins en leikurinn er spilaður helgina 14/15. febrúar næstkomandi.
Athugasemdir





