Hinn breski Gareth Owen hættir hjá Fram eftir tímabil og tekur við við stöðu yfirmanns fótboltamála hjá Val. Þetta herma heimildir Fótbolta.net.
Hann lætur af störfum sem markmannsþjálfari Fram en hann hefur gengt starfinu í tæp tvö ár. Helgi Sigurðsson aðstoðaþjálfari Fram var spurður út í Gareth eftir leik Fram gegn Val í gær.
„Gareth er búinn að vera mjög góður fyrir þetta félag. Hann á allan heiður skilið fyrir það. Það kemur alltaf maður í manns stað. Við hljótum að finna út úr því fyrir veturinn. En auðvitað er alltaf missir af góðum mönnum,“ sagði Helgi.
Gareth starfaði hjá Gróttu sem yfirmarkmannsþjálfari og aðstoðarþálfari meistaraflokks karla áður en hann fór til Fram fyrir tveimur árum.
Fyrir það starfaði Gareth hjá Chelsea og Velska knattspyrnusambandinu. Sem leikmaður var Gareth á mála hjá bæði Sheffield United og Swansea City.