Marco Silva þjálfari Fulham var óhress eftir 3-1 tap gegn Aston Villa í gær. Raúl Jiménez tók forystuna snemma leiks en fór svo meiddur af velli og vildi Fulham fá dæmda vítaspyrnu á 22. mínútu, en Josh King fékk gult spjald fyrir dýfu í staðinn.
Leikmenn Fulham heimtuðu aftur vítaspyrnu skömmu síðar þegar föst marktilraun frá King fór augljóslega í hendina á Matty Cash, sem var ekki upp við líkamann, og í hornspyrnu, en þeir fengu ekkert fyrir sinn snúð. Boltinn var á leið á rammann.
Sjáðu þegar boltinn fer í hendi á Matty Cash.
„Ég ætla að leyfa öðru fólki að tjá sig. King var í bæði skiptin í góðri stöðu til að refsa þeim og ég er búinn að sjá þessi atvik aftur. Mér finnst þetta ótrúlegt. Ég sýni dómurum virðingu og þeir geta reynt að útskýra þetta fyrir mér en ég bara skil ekki sumar ákvarðanir," sagði Silva.
„Hvernig er tæklingin frá (Emiliano) Martínez ekki vítaspyrna? Í öllum heiminum er dæmd vítaspyrna þegar leikmaður er tæklaður niður innan vítateigs.
„Við erum búnir að spila sex leiki á þessu úrvalsdeildartímabili og þurfum ekki fleiri útskýringar á röngum dómum. Josh King er búinn að fá tvö skrýtin gul spjöld og þeir eru búnir að taka eitt augljóst mark af honum það sem af er tímabils."
Athugasemdir