Real Madrid vill tvo leikmenn Chelsea - Man Utd hefur áhuga á Vlahovic - Bernardo Silva íhugar að fara til Sádi-Arabíu næsta sumar
   mán 29. september 2025 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bjuggust ekki við brottrekstri Potter svo skömmu fyrir leik
Mynd: EPA
Mynd: West Ham
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sky Sports segir frá því að það hafi komið leikmönnum West Ham United að óvörum þegar Graham Potter var rekinn úr þjálfarasætinu um helgina.

Potter er rekinn tveimur dögum fyrir útileik West Ham gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni og hefur Nuno Espírito Santo verið ráðinn inn í staðinn.

Búist var við að Potter yrði rekinn fyrir landsleikjahléð í október, en núna á Espírito Santo tvo erfiða útileiki framundan gegn Everton og Arsenal fyrir hlé.

Hamrarnir eiga þrjú stig eftir fimm fyrstu umferðirnar á nýju tímabili og eru dottnir úr leik í enska deildabikarnum. Potter stóð sig ekki nægilega vel á níu mánuðum við stjórnvölinn að mati stjórnenda og stuðningsmanna.

Stjórnendur byrjuðu að leita að arftaka fyrir Potter eftir 3-0 tap á heimavelli gegn Tottenham fyrir tveimur vikum og tóku endanlega ákvörðun eftir tapið gegn Crystal Palace um síðustu helgi.

Stjórnendur voru smeykir um að liðið myndi falla úr úrvalsdeildinni ef Potter fengi að vera áfram við stjórnvölinn.

Hamrarnir voru tilbúnir til að bíða til landsleikjahlésins í október með þjálfaraskiptin en Espírito Santo vildi hefja störf strax. Hann var ráðinn opinberlega um leið og samningaviðræðum lauk á laugardaginn.

Nuno stýrði síðast Nottingham Forest en var rekinn eftir ósætti við Evangelos Marinakis eiganda félagsins. Hann gerði frábæra hluti við stjórnvölinn hjá Forest og vakti mikla athygli á sér.

Hann á fjölskyldu í London og er spenntur fyrir að hefja störf í höfuðborginni í annað sinn, eftir að hafa verið ráðinn til Tottenham fyrir fjórum árum. Fyrsta verkefni hans hjá West Ham verður að laga hrikalegan varnarleik liðsins.

Potter vissi að starf sitt væri í hættu en það kom honum í opna skjöldu þegar honum var tilkynnt á æfingu að það yrði nýr þjálfari ráðinn inn fyrir leikinn gegn Everton tveimur dögum síðar.

Potter var samningsbundinn til 2027 og er stemningin á æfingasvæðinu sögð vera góð þrátt fyrir slakt gengi. Leikmenn bjuggust ekki við að Potter yrði rekinn svo skömmu fyrir leik.

Espírito Santo er talinn hafa verið efstur á óskalista West Ham en nokkur önnur nöfn komu til greina. Slaven Bilic kom meðal annars til greina sem mögulegur bráðabirgðaþjálfari.

   27.09.2025 14:01
Nuno tekinn við West Ham (Staðfest)

Athugasemdir
banner