Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 29. nóvember 2019 20:34
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Emery þakkar fyrir sig: Heiður að vera þjálfari Arsenal
Mynd: Getty Images
Spánverjinn Unai Emery var í morgun rekinn frá Arsenal. Úrslitin og frammistaða liðsins hafa ekki verið boðleg að undanförnu.

Emery tók við Arsenal af Arsene Wenger fyrir síðasta tímabil. Hann þjálfaði áður PSG og Sevilla meðal annars.

Arsenal var að birta á vefsíðu sinni bréf frá Unai Emery.

Það hefst svona: „Það hefur verið heiður að vera þjálfari Arsenal."

Og heldur svo áfram: „Til allra stuðningsmanna, ég vil þakka ykkur frá mínum dýpstu hjartarótum fyrir að hjálpa mér og skilja hversu stórt félag Arsenal er. Til ykkar allra sem hafið stutt okkur frá hverju horni heimsins, til ykkar allra sem hafið komið á Emirates, öll þið sem hafið beðið í rigningunni og kuldanum til að heilsa mér eftir leiki. Ég vil segja ykkur öllum að ég hef unnið af ástríðu, einurð og af dugnaði."

„Ég hefði viljað ekkert meira en að ná í betri úrslit fyrir ykkur."

„Ég vil einnig þakka öllum starfsmönnum Arsenal fyrir það hvernig þau hafa komið fram við mig. Ég vil sérstaklega þakka Ivan Gazidis, sem bauð mig velkominn til félagsins, og Raul Sanllehi, Edu og Vinai Venkatesham fyrir virðingu, félagsskap og hjálp. Alveg fram á síðustu stundu hefur verið komið fram við mig af heiðarleika. Og auðvitað sendi ég innilegt þakklæti til Kroenke-fjölskyldunnar fyrir þeirra traust."

„Þetta hefur verið eitt og hálft ár fullt af tilfinningum, af frábærum augnablikum og nokkrum öðrum súrari, en ég hef ekki farið í gegnum einn dag án þess að hugsa um það hversu heppinn ég hef verið að hafa unnið fyrir þetta félag og með þessum leikmönnum."

„Þeir hafa alltaf heiðrað treyjuna, þeir eiga skilið ykkar stuðning."

„Áður en ég kom hingað þá hafði ég upplifað mikið í fótbolta, en ég hef lært mikið í Englandi, í ensku úrvalsdeildinni, um virðingu fyrir atvinnumenn og hreinleika fótboltans."

„Mínar bestu óskir alltaf."

„COYG."


Athugasemdir
banner
banner