„Ég bjóst ekki alveg við að fá byrjunarliðssætið í síðasta glugga en er virkilega þakkklát og stolt af því," sagði landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir við Fótbolta.net í dag en hún hefur byrjað síðustu leiki landsliðsins í vinstri bakvarðarstöðunni og virðist vera að festa sér sætið.
„Það er auðvitað mikil samkeppni hérna og fullt af frábærum leikmönnum," bætti hún við.
Ísland mætir Wales í Þjóðadeild UEFA á Cardiff City leikvanginum klukkan 19:15 á föstudagskvöldið.
„Hópurinn er rosalega góður og við höfum verið að taka skref í rétta átt í hverjum glugga og planið er að halda því áfram," sagði Sædís.
„Leikurinn verður erfiður og við verðum að sýna okkar rétta andlit og fyrst og fremst vinna baráttuna og halda í okkar gildi."
Búast má við að bæði lið muni spila fast í leiknum og harka og barátta einkenni leikinn. Sædís er klár í það.
„Já já, maður er alltaf til í það og hef ekkert á móti því," sagði hún.
Ísland þarf stig úr leiknum til að tryggja sér sæti í umspili um áframhaldandi sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar. Sædís efast ekkert um að ná því.
„Við erum ekki komnar hingað til að biða og sjá heldur ætlum við að framkvæma og ætlum okkur þrjú stig," sagði hún að lokum.
Athugasemdir