Solanke á sölulista hjá Tottenham - Tilboðum Tottenham og Man Utd í Semenyo hafnað - Tottenham á eftir Samu
   mán 27. október 2025 17:35
Kári Snorrason
Þjálfarakapallinn - Væntanlegar vendingar
Hermann Hreiðarsson er að taka við Val.
Hermann Hreiðarsson er að taka við Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jói Kalli tekur við FH.
Jói Kalli tekur við FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Heiðar er á blaði hjá mörgum liðum.
Gunnar Heiðar er á blaði hjá mörgum liðum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Snýr Viktor Bjarki aftur í Kórinn?
Snýr Viktor Bjarki aftur í Kórinn?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halli Hróðmars er á lausu.
Halli Hróðmars er á lausu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fer Óskar Smári í Stjörnuna og hvað gerir Túfa?
Fer Óskar Smári í Stjörnuna og hvað gerir Túfa?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur og Adda eru sögð vera á blaði hjá Blikum.
Pétur og Adda eru sögð vera á blaði hjá Blikum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Tryggvason er eftirsóttur biti.
Gylfi Tryggvason er eftirsóttur biti.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson

Nú þegar allar deildarkeppnir á Íslandi eru búnar fer að draga til tíðinda í þjálfaramálum. Fjölmargir þjálfarar eru á lausu og nokkur lið án stjóra, svo það má búast við miklum hreyfingum og áhugaverðum tíðindum á næstu dögum og vikum.

Við hjá Fótbolti.net tókum saman væntanlegar sviðsmyndir um þau lið sem eru í þjálfaraleit. Ef fólk hefur ábendingar varðandi pakkann endilega hafið þá samband á netfangið [email protected].


Besta deild karla

Valur

Hermann Hreiðarsson hefur verið í viðræðum við Val síðustu daga og er búist við að hann verði tilkynntur sem nýr þjálfari liðsins á næstu dögum. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net verður Chris Brazell aðstoðarmaður Hermanns hjá Val en Brazell, sem er fyrrum þjálfari Gróttu, er í dag titlaður sem afreksþjalfari hjá félaginu.

FH

Eitt verst geymda leyndarmál íslensks fótbolta er að Jóhannes Karl Guðjónsson taki við FH. Félagið tilkynnti fyrir nokkrum vikum að búið væri að ráða þjálfara, en gáfu engin nöfn upp.

Sonur Jóa Kalla, Ísak Bergmann Jóhannesson, sá þó nánast um að setja staðfestingarsvigann utan um tíðindin í viðtali við Fótbolta.net fyrir stuttu.

Árni Freyr Guðnason og Atli Guðnason hafa báðir verið nefndir sem mögulegir aðstoðarþjálfarar í Kaplakrika.

Afturelding

Magnús Már Einarsson hefur stýrt liðinu síðan árið 2019, en samningur hans rennur út í vetur, en liðið féll í Lengjudeildina um helgina.

Í viðtali við Fótbolta.net á laugardaginn sagði Magnús vera opinn fyrir því að halda áfram þjálfun í Mosfellsbæ. Hann og félagið tóku ákvörðun um að ræða saman eftir tímabil og því allar líkur á því að hann haldi áfram.

Vestri

Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra, er í erfiðri stöðu. Liðið er fallið í Lengjudeildina en mun engu að síður taka þátt í Evrópukeppni á næsta tímabili.

Jón Þór Hauksson tók við liðinu undir lok tímabilsins eftir að Davíð Smári Lamude lét af störfum, en tilkynnti nú um helgina að hann myndi ekki halda áfram með liðið.

Haraldur Árni Hróðmarsson hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna, þá hafa jafnframt nokkrir erlendir þjálfarar sýnt starfinu á Ísafirði áhuga.

Lengjudeild karla

HK

Hermann Hreiðarsson er á leið úr Kórnum og færir sig yfir á Hlíðarenda. HK endaði í fjórða sæti deildarinnar og töpuðu í úrslitaleik umspilsins gegn Keflavík.

Viktor Bjarki Arnarsson, aðstoðarþjálfari Víkings, hefur verið orðaður við starfið. Viktor endaði ferilinn með HK og varð síðar aðstoðarþjálfari liðsins.

Þá eru Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Srdjan Tufegdzic einnig sagðir á blaði í Kórnum.

Njarðvík

Gunnar Heiðar Þorvaldsson sagði skilið við Njarðvíkinga eftir tímabilið en Davíð Smári þykir líklegasti kosturinn til að taka við Njarðvíkingum.

Þá fundaði Kjartan Henry Finnbogason jafnframt með liðinu en þær viðræður hafa ekki farið lengra samkvæmt því sem Fótbolti.net kemst næst. 

Völsungur

Aðalsteinn Jóhann Friðriksson hefur sagt skilið við Völsung og er orðinn nýr þjálfari Þórs/KA í Bestu deild kvenna. Alli Jói hefur náð frábærum bæði karla- og kvennalið félagsins síðustu ár, en karlaliðið endaði í 7. sæti Lengjudeildarinnar í sumar.

Bjarni Jóhannson, fyrrum þjálfari Selfoss og Guðmundur Óli Steingrímsson, þjálfari Magna, eru nöfn á blaði á Húsavík.

Leiknir R.

Lítið virðist ganga í þjálfaramálum Leiknis. Ágúst Gylfason stýrði liðinu seinni hluta sumars en gaf það út að hann væri hættur í þjálfun eftir tímabilið.

Jón Guðni Fjóluson, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Brynjar Björn Gunnarsson og Haraldur Árni Hróðmarsson hafa verið orðaðir við stöðuna. En Jón Guðni virðist nú vera út úr myndinni. 

Selfoss

Bjarni Jóhannson stýrði liðinu á nýafstaðnu tímabili og féll liðið niður um í 2. deild eftir tap gegn Keflvíkingum í lokaumferð Lengjudeildarinnar. 

Eiður Smári Guðjohnsen fundaði nýverið með Selfyssingum, og yrði það vægast sagt spennandi ráðning ef af verður. Þá hefur Óli Stefán Flóventsson hefur einnig verið orðaður við starfið.

Ægir

Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis, er samningslaus en samkvæmt heimildum Fótbolta.net heldur hann að öllum líkindum áfram störfum í Þorlákshöfn eftir að hafa unnið 2. deildina í sumar.

Nenad hefur verið þjálfari Ægis frá árinu 2019 en hann tók við liðinu í 4. deild. 

Besta deild kvenna

Breiðablik (kvk)

Pétur Pétursson og Adda Baldursdóttir hafa síðustu daga verið orðuð við þjálfarastarfið hjá Breiðabliki en félagið er í leit að nýjum þjálfara þar sem Nik Chamberlain mun halda til Svíþjóðar eftir Evrópuleikina í næsta mánuði. 

Magnús Már Einarsson er einnig orðaður við Breiðablik sem og Gunnar Borgþórsson. 

Stjarnan (kvk)

Þeir Jóhannes Karl Sigursteinsson og Arnar Páll Garðarsson munu ekki halda áfram með Stjörnuna á næsta tímabili. 

Óskar Smári Haraldsson, sem hefur náð frábærum árangri með Fram á síðustu árum, hefur verið orðaður við starfið, en hann þekkir vel til hjá Stjörnunni eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari kvennaliðsins ásamt því að þjálfa 2. og 3. flokk kvenna.

Gylfi Tryggvason kom Grindavík/Njarðvík upp um deild á sínu fyrsta tímabili með liðið en hann er einnig kostur fyrir Garðbæinga.

Fram (kvk)

Fari svo að Óskar Smári taki við Stjörnunni enda Framarar þjálfaralausir. Lítið hefur heyrst úr Úlfarsárdalnum um mögulega arftaka Óskars en nóg er af nöfnum til að velja úr.

KSÍ

U21 landsliðið

Breiðablik sótti Ólaf Inga Skúlason frá KSÍ eftir að þeir leystu Halldór Árnason frá störfum. Liðið er í miðri undankeppni og mun mæta Lúxemborg á útivelli þann 13. nóvember. 

Meðal nafna sem eru líkleg til að vera á blaði í Laugardalnum eru þeir Ómar Ingi Guðmundsson, Ejub Purisevic, Srdjan Tufegdzic, Halldór Árnason og Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

Þá gæti það farið þannig að KSÍ geymi það að finna mann til frambúðar þar til eftir leikinn gegn Lúxemborg í nóvember.

 


Athugasemdir
banner