Delap nálgast Man Utd - Rift við Laporte - Arsenal og Liverpool berjast um Huijsen
   fös 06. júní 2008 07:00
Fótbolti.net
Leikmaður 4.umferðar í Landsbankadeild kvenna
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmfríður Magnúsdóttir kantmaður úr KR er leikmaður fjórðu umferðar í Landsbankadeild kvenna. Hólmfríður stóð sig frábærlega í 1 – 5 sigri KR á Fylki í Árbænum þegar hún skoraði þrennu. Hólmfríður Magnúsdóttir er fyrsti leikmaðurinn í sumar til að skora þrennu og er vel að útnefningunni komin.

Hólmfríður hefur nú skorað 5 mörk í 4 leikjum með KR og er markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt Björk Gunnarsdóttir í Stjörnunni og Margréti Láru Viðarsdóttur í Val. KR er með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.
Hólmfríður Magnúsdóttir
Hólmfríður Magnúsdóttir er 23 ára kantmaður sem spilar hjá KR. Hólmfríður spilar vanalega á vinstri kantinum en hefur einnig spilað fremst á miðjunni hjá KR í sumar. Hólmfríður er fastamaður í landsliðinu og hefur að baki 31 leik fyrir A landslið Íslands og 26 fyrir yngri landslið Íslands. Hólmfríður var útnefnd besti leikmaður Íslandsmótsins valið af leikmönnum og þjálfurum liðanna á lokahófi KSÍ eftir síðasta tímabil. Hólmfríður hefur spilað fyrir danska úrvalsdeildarliðið Fortuna Hjörring og ÍBV í Vestmannaeyjum en Hólmfríður er uppalin hjá Fylki í Árbænum. Hólmfríður hefur spilað fyrir KR í fjölmörg ár og á að baki 107 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim 88 mörk.

,,Þetta kom mér skemmtilega á óvart. Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu sérstaklega núna þar sem að deildin er svo sterk og margi góðir leikmenn”, sagði Hólmfríður þegar við spurðum hana hvort tilnefningin hafi komið henni á óvart.

KR sigraði Fylki 5-1 í Árbænum, við spurðum Hólmfríði út í leikinn.

,,Þetta var mikill baráttuleikur, það var mjög mikilvægt fyrir okkur að skora snemma og gefa strax tóninn. Við hleyptum óþarfa spennu í leikinn þegar þær minnkuðu muninn í 2-1 því þær hefðu getað jafnað í 2-2 en svo varð ekki. Við settum þá annað mark á þær og þá var aldrei spuring hvorum megin sigurinn myndi lenda.“

,,En aftur á móti er alveg magnað hvað deildinn er orðin jöfn, það er greinilegt að öll liðin ætla sér eitthvað og gaman að sjá að það er miklu meiri metnaður í þessu núna en áður.”
sagði Hólmfríður

Hólmfríður skoraði fyrsta mark KR í leiknum og 2 síðustu, við báðum Hólmfríði að lýsa mörkunum.

,,Í fyrsta markinu snéri ég af mér tvær og átti skot fyrir utan teig. Í öðru markinu átti Guðrún Sóley langa sendingu inn fyrir vörnina og ég lyfti boltanum yfir markmannin. Þórunn átti langa sendingu inn fyrir í þriðja markinu og ég náði boltanum á undan markmanninum og náði að skora”.

Hólmfríður hefur átt við meiðsli að stríða í dálítinn tíma og missti meðal annars af 10 daga æfingaferð A landsliðsins til Algarve í mars, við spurðum Hólmfríði út í meiðslin og hvort hún væri búin að jafna sig að fullu.

,,Ég er ekki orðin alveg 100% heil. Ég finn til eymsla á hverri æfingu. Ég er búin að vera í góðri meðhöndlun hjá besta sjúkraþjálfara landsins henni Svölu, (Svala Helgadóttir sjúkraþjálfari KR og landsliðsins). Hún heldur mér góðri fyrir leiki og æfingar. En formið er nú alveg að koma með hverjum leiknum , en ég á meira inni.”
KR liðið er með fullt hús stiga eftir fjórar fyrstu umferðar Landsbankadeildarinnar

,,Ég er mjög sátt með að vera með fullt hús stiga enda fer maður í alla leiki til að taka öll 3 stigin. Við förum í hvern einasta leik til að sigra og svo er bara sjá í haust hverju það skilar okkur. Auðvitað viljum við titla í Vesturbæinn, til þess er maður í þessu.” sagði Hólmfríður um væntingar sumarsins.

KR spilar næst í Frostaskjóli gegn Stjörnunni. Stjarnan er sem stendur í 3.sæti deildarinnar með 8 stig.

,,Ég er bara nokkuð vel stemmd fyrir leikinn enda hlakkar okkur alltaf til að spila á KR-vellinum. Ég vil bara hvetja alla KR-inga til að mæta á völlinn og styðja okkur. Það er ekkert betra en að fá sér Vesturbæjarísinn og rölta síðan á völlinn kl.14:00, Áfram KR!” sagði Hólmfríður Magnúsdóttir að lokum við Fótbolta.net

Sjá einnig:
1. umferð: Katrín Jónsdóttir, Valur
2. umferð: Sophia Mundy, Afturelding
3.umferð: Björk Gunnarsdóttir, Stjarnan

Næsta umferð Landsbankadeildar kvenna verður laugardaginn 7.júní þar sem fimm leikir fara fram. Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fylgjast með gangi mála í öllum 5 leikjunum og að lokum velja leikmann 5. umferðar.
Athugasemdir
banner