Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 23. ágúst 2010 07:00
Hafliði Breiðfjörð
Umfjöllun um styrktarleik fyrir Rafn Heiðdal
Guðmundur Bj. Hafþórsson skrifar frá Egilsstöðum
Mynd: Agl.is - Gunnar Gunnarsson
Mynd: Agl.is - Gunnar Gunnarsson
Mynd: Agl.is - Gunnar Gunnarsson
Mynd: Agl.is - Gunnar Gunnarsson
Mynd: Agl.is - Gunnar Gunnarsson
Það er alveg ótrúlegt að fá að upplifa þá miklu samstöðu og samhug sem ég varð vitni af á Vilhjálmsvelli síðastliðið föstudagskvöld. Þar var háður leikur sem var á milli "Ungir og Gamlir", hver þekkir það ekki af æfingasvæðinu:)

Þessi leikur var þó engin æfing, heldur mikil skemmtun enda málefnið frábært. Safna fjár til stuðnings Rabba, 23 ára stráks sem greindist með illkynja krabbamein í júní á þessu ári.

Knattspyrnuferill Rabba byrjaði snemma, hann var ungur þegar hann hóf leik með Neista á Djúpavogi og lék þar fyrstu árin í meistaraflokki. Höttur á Egilsstöðum tók snemma eftir hæfileikum hans og fékk hann í sitt lið þar sem hann spilaði í vörn liðsins í nokkur ár og var í broddi fylkingar og skilaði ávallt sínu og gott betur stundum.

Árangur hans á velli vakti áhuga frá öðrum liðum og metnaður hans var mikill. Hann hækkaði sig því um deild síðasta haust og skipti yfir í Fjarðarbyggð sem spila í 1. deild. Hann átti í meiðslum í vetur og erfiðleikum og kom það á daginn snemma sumars að ekki var allt með felldu. Eftir ítarlegar rannsóknir kom í ljós að æxli var í líkama hans, ca 10 cm eða eins og eitt smjörlíkisstykki að lengd.

Leikurinn var þó fremur bragðdaufur í fyrrihálfleik og staðan jöfn 0-0 í hálfleik, í síðari hálfleik opnaðist leikurinn þó og góður dómari leiksins, Oliver Bjarki Ingvarsson dæmdi það sem dæma þurfti til að fá mörk í leikinn. Þannig fékk t.d. Hilmar Gunnlaugsson víti á silfurfati í stöðunni 0-1, en hann borgaði aðeins 10.000 krónur fyrir það!

Skúli Andrésson, æskuvinur Rabba frá Djúpavogi hafði komið "ungum" yfir snemma síðari hálfleiks með sneddí marki og hafði gaman að. Eftir að Hilmar hafði jafnað leikinn fyrir "gamla" sóttu "ungir" eins og enginn væri morgundagurinn, það átti eftir að koma í bakið á þeim því í vel útfærðri skyndisókn sem Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari og þjálfari "gömlu" hafði sett upp, þá komust þeir 3 á móti einum og Sigurður Magnússon, sá lúnkni maður sendi fyrir markið á títtnefndann Hilmar og skoraði hann aftur, staðan því orðin 2-1 fyrir "gamlir"!

Á þessum tímapunkti urðu þáttaskil í leiknum, Skúla Andréssyni leikmanni hjá "ungum" var kennt um seinna mark hjá þeim "gömlu" og eftir smá japl og jaml þá skiptu hann og einn leikmaður hjá "gömlu" um búning. Við þetta færðist mark Skúla á milli liða og staðan því allt í einu orðin 3-0 fyrir "gamla"!

En öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir á svona kvöldum og því var brugðið á það ráð að hleypa öllum leikmönnunum sem þátt tóku í leiknum inná völlinn og leikið yrði þangað til jafnt yrði á tölum. 27 leikmenn hjá "ungum" náðu að jafna leikinn gegn 19 leikmönnum hjá "gömlum", þurfti þó viljandi sjálfsmark Sigurjóns Stefánssonar til, því Magnús Jónasson markmaður hjá "gömlum" varði hreinlega allt sem á markið kom undir lokin.

Eftir að jöfnunarmarkið kom var flautað til leiksloka, þá var vítaspyrnukeppni þar sem leikar enduðu einnig jafnir, en einungis 3 leikmenn tóku spyrnu hjá hvoru liði, þar á meðal tók Rafn Heiðdal þá fyrstu og skoraði örugglega.

Það var frábært að sjá hvað margir komu á völlinn í kvöld, bæði til að spila og til að horfa. Á vellinum voru leikmenn frá flestum fjörðum og héruðum á Austurlandi. Söfnunarkassi var á staðnum á meðan leik stóð og söfnuðust ríflega 300.000 handa honum frá leikmönnum og áhorfendum í kvöld. Þar fyrir utan voru fyrirtæki á austurlandi mjög rausnarleg og gáfu einhver hundruð þúsund einnig.

Í síðustu viku voru svo einnig styrktartónleikar fyrir hann á uppeldisstað hans, Djúpavogi og söfnuðust þar hátt í þrjúhundruð þúsund. Þar fyrir utan er opinn reikningur í sparisjóðnum á Djúpavogi þar sem fólk getur lagt inn ef það hefur áhuga á að styrkja hann í þessum erfiðu veikindum, sem ég hvet sem flesta til að gera því margt smátt gerir eitt stórt. Reikningsupplýsingar eru:

kt. 191087-3729. Reikn: 1147-05-401910

Rafn sjálfur talaði svo við fólkið að leik loknum, hann var gríðar glaður en jafnframt hálf orðlaus og hrærður yfir þessu frábæra kvöldi. Hann hélt smá ræðu um veikindin sín, hvað hann væri búinn að ganga í gegnum og hvað væri framundan. Þakkaði fyrir frábærann stuðning og þá miklu umhyggju sem hann upplifði í kringum þetta í kvöld.
banner
banner
banner
banner