Man City setur verðmiða á Cancelo - Simons eftirsóttur - Lille hafnar Liverpool
   fös 09. september 2011 08:00
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Að vera yfir aðra hafinn
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Veigar Páll Gunnarsson sýndi öllum þeim sem standa að íslenska landsliðinu í knattspyrnu og þeim sem styðja það mikla óvirðingu með framkomu sinni síðastliðinn laugardag. Veigar Páll hefur notið mikilla vinsælda sem knattspyrnumaður og margir talað fyrir því að hann fengi aukin tækifæri með liðinu. En það mun seint færa nokkrum manni vinsældir að telja sig hafinn yfir reglur sem gilda um alla leikmenn landsliðsins.

Ólafur Jóhannesson stýrði landsliðinu til sigurs í fyrsta skipti í tæp þrjú ár á þriðjudagskvöld. Það er viss kaldhæðni í því að Veigar Páll var maðurinn sem tryggði Íslandi sigurinn gegn Makedónum á Laugardalsvelli haustið 2008. Hann hefur liðið fyrir það að vera klassa fyrir neðan Eið Smára Guðjohnsen en spila sömu stöðu. Tækifærin hafa því verið fá og hlutskipti hans fyrst og fremst verið sem varamaður.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta viðhorf Veigars segi ekki eitthvað um hans innri mann. Veigar braut reglur, sýndi dómgreindarleysi í flýti og reiði sem er vel hægt að fyrirgefa. Hann hefur væntanlega velt málinu aðeins fyrir sér þá daga sem hann neitaði að tjá sig um málið við fjölmiðla. En í stað þess að viðurkenna mistök sín og afsaka sig reynir hann að leysa úr málinu með því að segja reglurnar asnalegar. Hann ráði alveg við rauðvínsglas og tvo bjóra. Barnalegt.

Umræðan sem er nýfarin af stað virðist helst beinast að því hvort Veigar hafi yfirgefið landsliðið eða Ólafur sett hann í agabann. Þar stendur orð gegn orði. En það skiptir ekki nokkru máli. Eitthvað fíflalegt rifrildi í anda „you can’t fire me because I already quit” er algjört aukaatriði.

Sú var tíðin að stærsti draumur hvers manns var að spila fyrir landslið sitt, sameiningartákn þjóðarinnar. Eflaust dreymir margan ungan knattspyrnumanninn og konuna um að fá að klæðast bláu treyjuna en hegðun Veigars Páls gerir lítið úr því sem flestir myndu telja forréttindi.

Það að Veigar Páll sé ósáttur við Ólaf þjálfara og telji sig geta hegðað sér svona þar sem hans tími með landsliðið er að renna út er engin afsökun í mínum huga. Það er mín skoðun að Veigar Páll eigi ekki að fá að klæðast bláu treyjunni fyrr en hann sjái að sér. Það er, ef hann sér eftir þessu yfirhöfuð. Menn sem eru ekki meira gíraðir upp í að spila fyrir land og þjóð en svo að geta ekki fylgt einföldustu reglum landsliðsins eiga ekki að fá að spila fyrir það.

Smelltu hér til að taka þátt í umræða um greinina á Sammarinn.com
banner
banner
banner