mið 09. október 2019 18:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Nathan Ake skotmark Man City í janúar - Þarf líklega að borga metupphæð
Mynd: Getty Images
Manchester City eltir Liverpool í toppbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er ríkjandi meistari og nú þegar átta stigum á eftir toppliðinu frá Bítlaborginni.

City tapaði óvænt, 0-2, á heimavelli gegn Wolves um síðustu helgi. Mest er bent á fjarveru þeirra Kevin de Bruyne og Aymeric Laporte í City-liðinu þegar leitað er að ástæðu fyrir tapinu, en einnig vantaði miðvörðinn John Stones.

Laporte meiddist illa snemma á leiktíðinni og verður lengi frá. Hann er af flestum talinn besti miðvörður City-liðsins og því mikil blóðtaka að missa franska miðvörðin í löng meiðsli. Þá söðlaði gamli fyrirliðinn, Vincent Kompany, um og flutti sig yfir til Anderlecht í Belgíu eftir síðustu leiktíð.

ManchesterEveningNews greinir frá því að City ætli sér að klófesta Nathan Ake frá Bournemouth í janúarglugganum.

Leicester ætlaði að kaupa Hollendinginn í sumar í stað Harry Maguire en var ekki tilbúið að kaupa hann á 80 milljónir punda sem Bournemouth vildi fá fyrir hinn 24 ára Ake.

Ljóst er að ef City ætlar klófesta Ake þá þarf liðið væntanlega að borga dágóða summu og mögulega slá félagsmet til að fá hann frá Bournemouth. Riyad Mahrez er núverandi dýrasti leikmaður sem City hefur keypt en hann kostaði 60 milljónir punda sumarið 2018 þegar hann var keyptur frá Leicester.



Athugasemdir
banner
banner
banner