Valið hjá Man Utd er milli Solskjær og Carrick - Newcastle fær samkeppni frá Spurs um Strand Larsen - Lewandowski vill ekki fara
   mán 05. janúar 2026 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
West Ham reynir við markvörð Al-Nassr
Bento var lykilmaður í liði Al-Nassr en nýr þjálfari vill frekar styrkja aðrar stöður.
Bento var lykilmaður í liði Al-Nassr en nýr þjálfari vill frekar styrkja aðrar stöður.
Mynd: EPA
Bento er einn af varamarkvörðum brasilíska landsliðsins þar sem hann er í samkeppni við Alisson Becker og Ederson meðal annars.
Bento er einn af varamarkvörðum brasilíska landsliðsins þar sem hann er í samkeppni við Alisson Becker og Ederson meðal annars.
Mynd: EPA
Fallbaráttulið West Ham United þarf nauðsynlega á liðsstyrk að halda fyrir seinni hluta enska úrvalsdeildartímabilsins.

Hamrarnir hafa byrjað félagaskiptagluggann í janúar af miklum krafti og eru búnir að festa kaup á framherjum frá Brasilíu og Argentínu. Pablo er kominn úr röðum Gil Vicente í Portúgal á meðan Taty Castellanos kemur frá Lazio á Ítalíu.

Nuno Espírito Santo þjálfari er mjög ánægður með nýju leikmennina sína sem hann segist hafa samþykkt sjálfur. Félagið er einnig í leit að leikmönnum til að fylla í aðrar stöður og er markmannsstaðan ein þeirra.

Nuno er ekki nægilega ánægður með Alphonse Areola markvörð sem á oft góðar markvörslur en virðist óöruggur í öðrum þáttum leiksins. Hann er ekki með góða stjórn á vítateignum og gerir alltof oft mistök í fyrirgjöfum og föstum leikatriðum, auk þess að vera ekki sá færasti með fótunum.

Hamrarnir eru því að skoða Bento, brasilískan markvörð Al-Nassr sem fæst á gjafaprís. Jorge Jesus nýr þjálfari Al-Nassr vill ekki nota eitt útlendingapláss í leikmannahópnum sínum fyrir markvörð. Hann vill frekar að félagið noti öll útlendingaplássin fyrir útispilandi leikmenn.

Bento er 26 ára gamall og var aðalmarkvörður hjá Athletico Paranaense í heimalandinu áður en hann var keyptur til Al-Nassr fyrir 18 milljónir evra sumarið 2024.

Talið er að Hamrarnir geti keypt markvörðinn fyrir um 10 milljónir í janúar, en stærsta skrefið verður að semja við hann um persónuleg kjör. Bento er á mjög góðum og skattfrjálsum launum hjá Al-Nassr og gildir samningur hans við félagið í tvö og hálft ár til viðbótar.

Ederson, markvörður Manchester City, var helsta skotmark Al-Nassr sumarið 2024 en félagið snéri sér að Bento þegar það reyndist of erfitt að krækja í Ederson. Bento á 6 A-landsleiki að baki fyrir Brasilíu.

Bento er samherji Cristiano Ronaldo, Kingsley Coman og Joao Félix hjá Al-Nassr.
Athugasemdir
banner
banner
banner