Cancelo, sem getur bæði leikið sem hægri og vinstri bakvörður, er með 64 landsleiki að baki fyrir Portúgal.
Joao Cancelo er á leið til Barcelona eftir að Spánarmeistararnir staðfestu áhuga sinn á honum í dag.
Útlit var fyrir að Cancelo væri á leið til Inter á lánssamningi út tímabilið en það var alltaf ljóst að hann vildi frekar fara til Barcelona.
Börsungar lýstu þó ekki opinberlega yfir áhuga fyrr en þeir lögðu fram tilboð í dag. Stjórnendur félagsins þurftu að ganga úr skugga um að fjármálin myndu ganga upp í ljósi vandræða félagsins við að standast fjármálareglur spænsku deildarinnar.
Samkvæmt Fabrizio Romano er Cancelo búinn að samþykkja tilboðið frá Barcelona en Spánarmeistararnir eru í viðræðum við Al-Hilal.
Inter var búið að ná samkomulagi við Al-Hilal og Cancelo en leikmaðurinn vill frekar skipta til Barcelona.
„Við erum í viðræðum um félagaskipti fyrir Joao Cancelo, okkur vantar hægri bakvörð til að fylla í skarðið fyrir Denzel Dumfries. Vandamálið er að Cancelo er með risastóran launapakka, en við erum í viðræðum til að reyna að finna lausnir. Al-Hilal vantar nýjan miðvörð og við sjáum til hvernig þetta mál þróast," sagði Beppe Marotta, forseti Inter, á dögunum. Ítalska stórveldið ætlaði að senda Francesco Acerbi, 37, eða Stefan de Vrij, 33, til Al-Hilal þar sem miðverðirnir renna báðir út á samningi næsta sumar.
Marotta var einnig spurður út í miðjumanninn Davide Frattesi sem fær lítinn sem engan spiltíma núorðið og hefur verið orðaður við tyrkneska stórveldið Galatasaray. „Leikmaðurinn er ekki búinn að segjast vilja fara, en við erum tilbúnir til að hlusta á tilboð í hann."
Cancelo er 31 árs gamall og hefur áður spilað bæði fyrir Inter og Barcelona á ferlinum.
Uppfærlsa: Fabrizio Romano er búinn að setja „here we go!" stimpilinn á félagaskiptin til Barcelona.
02.01.2026 21:00
Barcelona í fyrsta sæti hjá Cancelo
Athugasemdir




