Damir Muminovic var tilkynntur sem nýr leikmaður Grindavíkur á föstudag og á sama tíma var Hjörvar Daði Arnarsson kynntur til leiks. Varnarmaðurinn Damir mun koma frá Breiðabliki eftir lokaleik liðsins í Sambandsdeildinni seinna í þessum mánuði. Markvörðurinn Hjörvar kemur frá ÍBV þar sem hann hefur verið undanfarin tvö ár.
Damir hefur unnið þrjá Íslandsmeistaratitla á sínum ferli og því ráku margir upp stór augu á föstudag þegar hann var tilkynntur í Grindavík, en hann hafði áður verið orðaður við grannana í Keflavík. Fótbolti.net ræddi við formann fótboltadeildar Grindavíkur, Sigurð Óla Þorleifsson, um komu leikmannanna tveggja.
Damir hefur unnið þrjá Íslandsmeistaratitla á sínum ferli og því ráku margir upp stór augu á föstudag þegar hann var tilkynntur í Grindavík, en hann hafði áður verið orðaður við grannana í Keflavík. Fótbolti.net ræddi við formann fótboltadeildar Grindavíkur, Sigurð Óla Þorleifsson, um komu leikmannanna tveggja.
„Þetta er yfirlýsing frá okkur að við ætlum okkur að halda áfram, yfirlýsing um það að Grindavík er ekki dáin. Þarna eru tveir strákar sem eru til í að taka þátt í þessu verkefni með okkur, að halda starfinu gangandi og skila okkur heim. Við sjáum fram á bjarta tíma, nú fer unga fólkið að flytja heim og við viljum hafa fótbolta næstu kynslóðir," segir Siggi.
Má ekki alveg segja að félag sem fær Damir Muminovic er ekki bara að horfa í það að halda sæti sínu í deildinni?
„Að sjálfsögðu ekki, það er ekkert launungarmál að Damir er leiðtogi, kannski leiðtoginn sem okkur vantar. Við erum með gríðarlega efnilega unga og flotta stráka sem við bindum miklar vonir við. Við erum búnir að skila tveimur strákum út í atvinnumennsku á síðustu tveimur árum. En okkur kannski vantar smá kjöt til að leiðbeina þeim inni á vellinum. Við settumst niður með Damir og hann var til í að taka þátt í þessu með okkur, taka þátt í vegferðinni og taka ábyrgð. Við ætlum okkur auðvitað að stefna eins ofarlega og við getum, skoðum stöðuna á því eftir áramót."
Það var sagt frá því hér á Fótbolta.net að bæði Þróttur og Njarðvík vildu fá Hjörvar en hann endaði á að semja í Grindavík.
„Hann er öflugur leikmaður, við erum búnir að hafa augastað á Hjörvari í nokka mánuði. Það var eins með hann og Damir, ég tók gott spjall við hann fyrir viku síðan, fór yfir hvernig við sjáum þetta."
„Þessir strákar geta líka horft í það að geta haft það á ferilskránni að hafa hjálpað til í þessu verkefni því það sem við erum að gera er einstakt, það væru margir búnir að kasta inn handklæðinu, en það er ekki grindvískt. Þetta eru strákar með frábært hugarfar sem passa inn í okkar hugarfar," segir Sigurður Óli.
Athugasemdir



