„Er ótrúlega svekktur fyrir hönd strákanna að fá ekkert út úr leiknum," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari Keflavíkur eftir 3-2 tap gegn KA á Dalvík.
Lestu um leikinn: KA 3 - 2 Keflavík
„Við lendum undir 1-0 en jöfnum og komumst yfir og sýndum góða baráttu og gott skipulag. Sýndum dugnað og vilja og í stöðunni 2-1 fyrir okkur fáum við tvö mjög góð tækifæri að fara í 3-1 en klúðrum þeim. Maður fær það oft í bakið þegar maður nýtir ekki færin á móti góðum liðum. Við gefum víti, ótrúlega svekkjandi að fá ekkert útúr þessum leik."
Liðið er án stiga eftir fyrstu fjórar umferðirnar en ásamt KA hefur liðið mætt Breiðablik, Val og Víking. Er kominn skjálfti í hópinn?
„Nei, mótið er 27 leikir, erum búnir með 12-13 prósent af leikjunum. Við höfum mætt þremur bestu liðunum landsins í fyrstu þremur umferðunum. Ég held að flest liðin í deildinni verði í basli með þau lið," sagði Sigurður.
„Við erum óheppnir að byrja mótið gegn svona erfiðum mótherjum á meðan við vorum í miklum meiðslum líka en í dag spiluðum við mjög vel og ég er stoltur af liðinu."























