Newcastle vill læra af síðasta sumri - Arsenal í baráttu við PSG um leikmann - Man Utd búið að krækja í ungan leikmann
   fös 02. maí 2025 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Arnór Borg: Á spennandi stað á mínum ferli og vil sýna hvað í mér býr
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Vestri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Borg Guðjohnsen gekk í raðir Vestra á lokadegi félagaskiptagluggans. Sóknarmaðurinn kemur á láni frá FH og er Vestri með forkaupsrétt.

Hann er 24 ára og hefur verið hjá FH síðan í sumarglugganum 2023. Hann kom við sögu í 23 leikjum með FH á síðasta tímabili og skoraði tvö mörk og hafði komið við sögu í öllum fimm leikjunum á þessu tímabili áður en hann var lánaður. Hann ræddi við Fótbolta.net um skiptin.

„Ég er bara mjög ánægður að vera kominn í Vestra og þakklátur fyrir þetta tækifæri. Það var eitthvað fleira í gangi en ég taldi þetta rétta skrefið."

„Vestri eru með flott verkefni í gangi og flott teymi í kringum liðið,"
segir Arnór aðspurður um hvað heilli mest við Vestra.

„Aðdragandinn var bara nokkuð einfaldur, ég fékk leyfi frá FH til að tala við klúbba og svo gerðist þetta bara nokkuð fljótt."

Arnór kom heim til Íslands árið 2020 eftir að hafa verið hjá Swansea. Hann var í eitt og hálft tímabil hjá Fylki áður en hann fór í Víking og fór svo einu og hálfu tímabili seinna til FH.

Vonast til að geta komið sínu almennilega á framfæri
Hvað finnst þér um staðinn sem þú ert á á þínum ferli í dag?

„Mér finnst ég bara vera á spennandi stað á mínum ferli. Ég hef kannski ekki náð að koma mínu almennilega á framfæri en vona að þetta verði skrefið til þess."

Hvað langar þig til að afreka hjá Vestra?

„Mig langar fyrst og fremst að njóta þess að spila fótbolta og sé þetta sem flottan stað til þess. Svo langar mig bara að gefa mig allan í þetta verkefni og sjá hvert það tekur mig."

Hvernig líst þér á að vinna með Davíð Smára?

„Mér líst mjög vel á Davíð. Alvöru þjálfari og svona 'no bullshit' gæi. Ég er alveg viss um að ég geti lært mikið hjá honum."

Engin tenging, bara gaman að prófa eitthvað nýtt
Hefur Arnór einhverja tengingu vestur? Var ekkert hik að segja já við að fara á Ísafjörð?

„Ég hef enga tengingu vestur. Þetta er bara huggulegur bær og ég var strax spenntur þegar ég heyrði að þetta væri möguleiki. Það er gaman að prófa eitthvað nýtt," segir Arnór.

Hann gæti spilað sinn fyrsta leik með Vestra á sunnudag þegar liðið mætir ÍBV á Þórsvelli.
Athugasemdir
banner