Hollenski vængbakvörðurinn Denzel Dumfries er falur fyrir 25 milljónir evra næstu tvær vikurnar en það er Fabrizio Romano sem greinir frá klásúlu leikmannsins í kvöld.
Dumfries er 29 ára gamall og verið einn af bestu vængbakvörðum heims síðustu ár.
Hann átti sitt besta tímabil í treyju Inter á síðustu leiktíð er liðið komst alla leið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og var í titilbaráttu í Seríu A.
Hollendingurinn kom að 17 mörkum í öllum keppnum, en það gæti farið svo að Inter missi hann frá sér fyrir algjöran gjafaprís síðar í þessum mánuði.
Romano segir að 25 milljóna evra klásúla í samningi Dumfries sé nú formlega í gildi en félög hafa aðeins tvær vikur til þess að virkja hana.
Spænska félagið Barcelona er mjög áhugasamt um Dumfries, en hefur þó ekki enn sem komið er sett sig í samband við Inter.
Athugasemdir