fös 03. apríl 2020 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Tevez vonar að veiran breyti heiminum til hins betra
Tevez er að spila fyrir Boca Juniors í þriðja sinn á ferlinum.
Tevez er að spila fyrir Boca Juniors í þriðja sinn á ferlinum.
Mynd: Getty Images
Carlos Tevez, 36 ára framherji Boca Juniors í Argentínu og fyrrum leikmaður Manchester United, Man City og Juventus meðal annars, telur að atvinnumenn í knattspyrnu víða um heim ættu að taka á sig launalækkanir í miðjum heimsfaraldri.

Mikil umræða er í ensku úrvalsdeildinni varðandi launalækkanir og hafa stjórnendur neðrideildasambandsins, þjálfarasambandsins og knattspyrnumannasambandsins fundað um málið síðustu daga.

Tevez telur að úrvalsdeildarleikmenn ættu að taka á sig launalækkanir, enda sé ekki mikið mál fyrir atvinnumann í knattspyrnu að lifa án launa.

„Knattspyrnumaður getur lifað í sex mánuði eða eitt ár án þess að fá laun. Við erum ekki í sömu stöðu og vinnandi fólk með börn sem fer út úr húsi klukkan 6 á morgnana og kemur aftur heim klukkan 7 til að geta fætt fjölskylduna," sagði Tevez á AmericaTV í heimalandinu.

„Við verðum að aðstoða samfélagið á þessum erfiðu tímum. Það er auðvelt fyrir okkur að segja fólki að halda sig heima, við vitum að við eigum mat fyrir börnin okkar. Það eru ekki allir í sömu sporum.

„Knattspyrnufélög verða að hjálpa til. Ein hugmynd er að láta leikmenn hjálpa samfélaginu þegar æfingar hefðu átt að vera. Við verðum að sýna fordæmi. Það er hægt að gera myndbönd úr stofunni en alvöru fordæmi væri að fara út og aðstoða þá sem eru í erfiðleikum."


Tevez vonar að heimsfaraldurinn hafi ekki aðeins slæma hluti í för með sér. Hann vill sjá samheldni fólks óháð kynþætti eða stétt.

„Það eru engin lið hér. Félagsstétt fólk skiptir engu máli. Við viljum öll hjálpa. Vonandi verður þetta til þess að heimurinn kemur saman og fólk áttar sig á því að við erum öll eins. Ég vona að veiran breyti heiminum til hins betra."
Athugasemdir
banner