Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 03. apríl 2020 15:30
Magnús Már Einarsson
Tímavélin: Lee Sharpe í Grindavík
Birtist upphaflega árið 2011
Lee Sharpe hress í búningi Grindavíkur.
Lee Sharpe hress í búningi Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grein úr Morgunblaðinu 17. desember þegar Grindvíkingar voru að hefja viðræður við Sharpe.
Grein úr Morgunblaðinu 17. desember þegar Grindvíkingar voru að hefja viðræður við Sharpe.
Mynd: Timarit.is
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grein í Fréttablaðinu eftir að Sharpe yfirgaf Grindvíkinga.
Grein í Fréttablaðinu eftir að Sharpe yfirgaf Grindvíkinga.
Mynd: Timarit.is
Í tímavélinni í dag förum við aftur til ársins 2003 og rifjum upp þegar Lee Sharpe gekk til liðs við Grindvíkinga. ÞEssi tímavél birtist upphaflega árið 2011.

Sjá einnig:
Lee Sharpe: Grindavík aðeins of lítill staður fyrir mig (28. apríl 2011)



Það vakti gífurlega athygli síðla árs 2002 þegar fréttir bárust af því að Grindavík ætti í samningaviðræðum við Lee Sharpe. Enski kantmaðurinn var á þessum tíma 31 árs gamall og án félags eftir að hafa átt farsælan feril með liðum eins og Manchester United, Leeds og Sampdoria. Sharpe lék á sínum tíma hátt í 200 leiki með Manchester United og því var mikið fjallað um það í Bretlandi þegar hann samdi síðan við Grindvíkinga árið 2003 eftir nokkurra mánaða umhugsun.

„Þetta byrjaði á því að Sigurbjörn Daði Dagbjartsson bróðir minn fór út á leik og hitti Lee Sharpe óvænt á stað í Manchester sem heitir The Living Room. Þegar hann kom heim fór hann að tala um hvað hann væri í góðu formi og hann fór að spá í því hvort það væri ekki hægt að fá Sharpe til að koma og spila með Grindavík,“ segir Jón Gauti Dagbjartsson þegar hann rifjar upp Sharpe ævintýrið en hann og Sigurbjörn áttu stærstan þátt í að fá hann til Grindavíkur.

„Við byrjuðum á því að tala við Jónas Þórhallsson formann og Bjarna Jó sem var þá þjálfari og athuga hvort það mætti fá hann til félagsins ef það myndi ekki kosta klúbbinn neitt og við myndum safna fyrir þessu sjálfir. Jónas skalf af gleði og Bjarni fékk raðfullnægingar.“

„Við bjuggum til samning á blaði og ég hringdi í hann og bar upp þetta erindi. Ég dásamaði klúbbinn og sagði hvað við hefðum í huga. Hann sagðist vilja að melta þetta og í febrúar fór ég út á leik og hitti hann. Ég tók með tilboð á blaði og tók líka með eina öskju af íslenskum fiski til að gefa honum. Við fórum síðan heim en fljótlega hafði hann samband og sagðist ætla að sleppa þessu.“


Sigurbjörn og Jón Gauti gáfust þó ekki upp heldur gerðu betra samningstilboð sem þeir sendu síðan á Sharpe.

„Við vorum byrjaðir að safna fyrir þessu og það gekk ágætlega þannig að við breyttum tilboðinu aðeins. Þá beit hann á agnið en hann vildi koma fyrst koma til Grindavíkur, taka æfingu með liðinu og skoða aðstæður.“

Fékk 1 í einkunn í fyrsta leik:
Sharpe samdi síðan við Grindvíkinga og fór með liðinu í æfingaferð áður en hann kom til Íslands og spilaði leiki í deildabikarnum. Þar skoraði hann meðal annars sitt fyrsta og eina mark með Gindavík í leik gegn Keflvíkingum.

Sharpe var þó alls ekki í sínu besta formi og það sást augljóslega þegar Grindavík tapaði 2-1 gegn Val í fyrstu umferð í Landsbankadeildinni þann 18. maí. Sharpe fékk 1 í einkunn í DV fyrir frammistöðu sína í leiknum.

„Lee Sharpe spilaði fyrsta alvöruleik sinn fyrir Grindavík og það er óhætt að segja að það vanti mikið upp á að vera kappans i liðinu geti gert gæfumuninn fyrir það. Hann virkaði þungur, þreyttur og áhugalaus og skapaði enga hættu í þau fáu skipti sem hann fékk boltann. Það verður reyndar að segjast honum til vorkunnar að aðrir leikmenn liðsins gerðu ekkert til að koma honum inn í leikinn heldur dældu löngum boltnum fram, boltum sem enduðu yfirleitt í hrömmum vindsins,“ sagði í umfjöllun DV um leikinn.

Eftir tap gegn Fylki í annarri umferð kom síðan fyrsti sigurleikur Grindavíkur í þriðju umferð gegn Fram. Grindavík sigraði þann leik 3-2 þar sem Sharpe og Sinisa Valdimar Kekic fóru á kostum. Kekic skoraði þrennu en Sharpe lagði upp eitt mark og fékk 5 í einkunn af 6 mögulegum hjá DV.

Sharpe var ekki á sukkinu:
Leikurinn við Fram fór fram á föstudagskvöldi og eftir leik fóru nokkrir leikmenn Grindavíkur út að skemmta sér. Í þeim hópi var Lee Sharpe en margir stuðningsmenn Grindavíkur voru ósáttir við leikmennina þar sem Grindavík átti leik gegn ÍBV á þriðjudegi. Grindvíkingar höfðu ekki leyfi til að fara út að skemmta sér þetta umrætt föstudagskvöld og fjallað um var málið í fjölmiðlum. Einhverjir leikmenn fengu að taka út refsingu en Sharpe var sjálfur hissa á því hversu mikið var gert úr málinu.

„Þegar ég kvaddi hann sagðist hann aldrei hafa kynnst öðrum eins reglum varðandi til dæmis bjór. Það héldu margir að Sharpe hafi verið á sukkinu hérna en hann var það ekki. Hann var með liðinu og tók alveg þátt í því en það var ekkert meira en það,“ sagði Jón Gauti.

Leikurinn gegn ÍBV á þriðjudeginum tapaðist 2-0 og í kjölfarið kom tveggja vikna hlé á deildinni. Leikurinn við ÍBV reyndist vera síðasti leikur Sharpe með Grindavík því hann hélt heim á leið um miðjan júní.

Opinber ástæða fyrir brotthvarfi Sharpe var sú að hann væri tognaður aftan á læri og yrði af þeim sökum frá í 6-8 vikur. Það var þó ekki alveg rétt en Sharpe var reyndar að glíma við bakmeiðsli sem höfðu smá áhrif á þá ákvörðun hans að fara heim.

„Hann var að eiga við bakmeiðsli og það var engin lygi eins og sumir héldu. Megnið af stjórninni, hugsanlega þjálfarinn plús nokkrir leikmenn höndluðu ekki að vera með Lee Sharpe í liðinu sem var afskaplega fáránlegt því hann var venjulegri en flestir,“ segir Jón Gauti sem sér ekki eftir vinnunni sem fór í að fá Sharpe til Grindavíkur.

„Við erum ennþá að tala um þetta ég og Sigurbjörn og við erum ógeðslega stoltir af því að hafa tekist þetta.“

Kostaði engar milljónir:
Jón Gauti og Sigurbjörn söfnuðu fyrir launakostnaði Sharpe en hann fékk greitt fyrir hvern leik sem hann spilaði með Grindvíkingum. Kostnaðurinn varð því ekki mikill á endanum því Sharpe spilaði samtals einungis fjóra leiki í Landsbankadeildinni.

„Við settum alla deildarleiki inn í þetta, reiknuðum með fimm leikjum í bikar og tveimur Evrópuleikjum. Ef hann hefði spilað alla þessa leiki þá hefði þetta kostað minnir mig átta milljónir króna,“ sagði Jón Gauti.

„Við skulduðum honum tvo leiki þegar hann fór en hann hefur aldrei beðið um það. Þetta kostaði á endanum engar milljónir. Þegar hann kom þá vorum við búnir að safna fyrir 80% af þessu og við viljum meina að það verði nánast ekki endurtekið.“

Sharpe lék árið eftir um tíma með utandeildarliðinu Garforth Town áður en skórnir fóru endanlega á hilluna árið 2004. Síðan þá hefur Sharpe einbeitt sér meira að því að spila golf en ljóst er að Grindvíkingar eiga eftir að muna lengi eftir stuttri dvöl hans hjá félaginu árið 2003.


Ef lesendur hafa ábendingar um áhugavert efni í "Tímavélina" má senda tölvupóst á [email protected]

Sjá einnig:
Eldra efni í Tímavélinni
banner
banner
banner
banner