lau 03. júní 2023 14:01
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Sveindís: Það stærsta sem maður getur tekið þátt í
Mynd: Getty Images

„Ég er mjög spennt, við erum allar mjög tilbúnar. Við vitum hvað við viljum, það er auðvitað að fá titilinn heim," sagði Sveindís Jane Jónsdóttir leikmaður Wolfsburg í samtali við Rúv fyrir leik liðsins gegn Barcelona í úrslitum Meistaradeildarinnar.


„Það er gott fyrir okkur að öll pressan er á þeim, þær fóru í úrslitaleikin í fyrra og töpuðu þar þannig það er ennþá meiri pressa. Við ætlum að nýta okkur að pressan er ekki öll á okkur."

Barcelona er með gríðarlega sterkt lið en Wolfsburg veit hvað þarf til að vinna.

„Þær eru með heimsklassa leikmenn í öllum stöðum. Við verðum að vita hvað við ætlum að gera og hvert okkar upplegg er. Spila okkar bolta, með enga pressu á okkur. Við þurfum að gefa allt í þetta, síðasti leikurinn á tímabilinu svo við gefum ekkert eftir," sagði Sveindís.

Draumur að verða að veruleika. Hún er staðráðin í því að spila oftar í úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Þetta er það sem manni dreymir um þegar maður er fótboltakona. Þetta er það stærsta sem maður getur tekið þátt í. Ég er ógeðslega ánægð með þetta og að vita að þetta sé ekki í síðasta skiptið heldur fyrsta og ég ætla að fá að spila þessa leiki oftar, ég er ótrúlega spennt og bíð eftir að geta tekið á móti titlinum."


Athugasemdir
banner
banner
banner