Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 04. mars 2016 10:00
Þorkell Máni Pétursson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Kassavæðing knattspyrnunnar
Þorkell Máni Pétursson
Þorkell Máni Pétursson
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Þegar ég heyri setninguna „fótbolti er fyrir alla” get ég ekki neitað því að ælan byrjar að spítast úr munnvikum mínum.

Það er setning sem átti miklu frekar við þegar ég þjálfaði yngri flokka fyrir 10-15 árum en á ekki við í dag. Ástæðan er sú að vinsældir fótboltans hafa orðsakað það að fótbolti er að verða smátt og smátt litlaus, tilgerðarleg, kassalaga skemmtun. Mælikvarði á karakter ákvarðast nú til dags af því hversu stór tattoo-ermin er og hversu bleikir skórnir eru.

Þessi sök liggur fyrst og síðast hjá félögunum, þau virðast ekki ráða við allan þann fjölda iðkenda sem rekinn er áfram af eigin draumum eða draumum foreldra sinna um frægð og frama á fótboltavellinum. Ekki er lengur pláss fyrir drenginn eða stúlkuna sem er kominn til þess að hafa bara gaman eða eru út úr kassanum. Börnum sem raunverulega þurfa á fótbolta að halda.

Knattspyrnuhreyfingin er ekki lengur í stakk búin að hjálpa og hvetja áfram þá sem ekki eru í kassanum. Í dag eru of margir góðir eða þokkalegir knattspyrnumenn og ef þú ert ekki týpan sem getur verið í kassanum skaltu drulla þér í burtu. Fólkið sem er ekki í kassanum er fólkið sem hefur erfitt skap, er ofvirkt, er með kvíða, hefur lent í einelti, er þunglynt og hefur fengið að kynnast hinum myrku hliðum lífsins. Kannski alltof snemma.

Í dag, þrátt fyrir allskonar tilgerðarlegar tilraunir, hafa íþróttafélögin ekkert umburðarlyndi gangvart þessum einstaklingum.

Þessi enduspeglun á umburðarleysi félagana gagnvart hinum óvenjulegu einstaklingum sem ekki geta verið í kassanum er einnig sérstaklega áberandi í knattspyrnu hjá fullorðnum. Allir eru til í að faðma og kyssa einstaklinginn þegar hann er að skora mörk, breytir leikjum og tryggir titla. Um leið og hann fer út af sporinu er stutt í að þolinmæðin sé á þrotum og menn eru til í að fórna einstaklingnum í staðinn fyrir að eyða orku sinni í að takast á við vandamálið.

Vandamál þar sem niðurstaðan er stórt spurningamerki þegar nóg er af leikmönnum í gæðaflokknum fyrir neðan sem ekki þarf að sinna jafn mikið. Gæðaflokkurinn fyrir neðan getur einmitt spilað 20 leiki þokkalega en týpan sem á í vandræðum með sjálfan sig er alltaf að detta inn og út úr stuði.

Menn gætu hinsvegar spurt sig hvar fótboltinn væri í dag án þessara manna eins og Zidane, Suarez, Zlatans eða Maradona? Eða hefðu menn gefist upp á ungum Steven Gerrard og Wayne Rooney? Hvernig væri íslensk knattspyrna án Tryggva Guðmunds, Óla Þórða, Sigga Jóns, Hemma Hreiðars eða Kópavogur án Gulla Gull?

Ferguson er án efa konungur allra knattspyrnustjóra. Um það er ekki deilt. Hann vann hvern titilinn á fætur öðrum með liðum sem voru uppfull af mönnum sem voru út úr kassanum. Ferguson vissi einmitt betur en flestir að það eru karakterar sem búa til stórveldi. Þeir koma með þessa sérstöku orku inn því þeir eru út úr kassanum.

Í júní 2013, fór ég með átta ára gamlan son minn á Norðurálsmótið á Akranesi. Í einum leiknum fannst syni mínum illa brotið á réttlæti sínu og dómarinn bað hann vinsamlegast að fara að velli þar sem hann var að sýna þjálfaranum sínum fingurinn. Sonur minn snéri sér síðan við og sparkaði í dómarann. Þegar út af var komið brast hann í grát, eitthvað sem hann gerir vanalega þegar hann veit að hann hefur misst sig í skapinu. Það er einmitt erfitt að ráða við tilfinningar sínar. Sérstaklega þegar maður er bara 8 ára að berjast við ofvirkni og kvíða.

Þegar leiktíminn var að renna út og 3-4 mínútur voru eftir af leiknum hljóp dómari leiksins að hliðarlínunni og sagði þjálfaranum að setja strákinn aftur inn á. Eftir að hafa faðmað þjálfarann sinn spilaði hann síðustu tvær mínúturnar. Ég verð ekki oft orðlaus en varð það þarna. Ég gekk að dómaranum og spurði afhverju hann hefði hleypt honum inn á og fékk svarið að hann vissi að það væri mikilvægt fyrir hann að leiðrétta hlut sinn.

Dómarinn ræddi síðan við son minn eftir leik. Sama hvað sonurinn minn mun gera á knattspyrnvellinum í framtíðinni þá veit ég að hann á eftir að hugsa hlýlega til þessa augnabliks þegar hann hefur aldur til þess að skilja það. Það mun alltaf gera hann að aðeins betri manneskju.

Það ætti kannski ekki að koma á óvart að viðbrögð sem þessi hafi komið uppá Akranesi, enda ekkert samfélag í Evrópu alið af sér jafn marga einstaklinga, sem ekki passa í kassann og Skaginn. Karaktera sem skilað hafa félagi sínu fleiri titlum en eðlilegt getur talist miðað við stærð bæjarfélagsins. Skagamenn gætu hins vegar líka spurt sig að því hvort þeir hafi verið of fljótir að gefast upp á einhverjum leikmönnunum sem áttu erfitt með að fara eftir reglum. Sérstaklega í ljósi þess að þeir hafa eilítð verið að kvarta yfir kynslóðum sem komu á eftir.

Kæra knattspyrnuhreyfing
Fótbolti er leiðinlegur án karaktera. Fótbolti verður leiðinlegur ef knattspyrnuhreyfingin og þjálfarar taka sig ekki saman í andlitinu og drullast til þess að skilja að það eru ekki allir á leið í þennan ömurlega kassa. Ef við í raun og veru elskum fótbolta og viljum gera góða hluti fyrir samfélagið tökum við á þessum málum með auðmýkt og kærleik. Við gerum okkar besta til þess að skapa einstaklinga sem gætu skrifað nýjan kafla í íslenska knattspyrnusögu eða látið gott af sér leiða fyrir samfélagið á annan hátt.

Íþróttafélög og þjálfarar eiga ekki bara að vera til staðar til þess að framleiða afreksfólk í íþróttum, miklu mikilvægara er að aðstoða börn og unglinga (ásamt foreldrum þeirra) að skapa heilsteypta og sterka einstaklinga sem trúa því og vita að framlag þeirra til lífsins stendur ekki og fellur með því hversu góð þau eru í íþróttum. Að þeim sé gerð grein fyrir því að þau mega vera „öðruvísi”. Við munum samt sem áður taka þeim opnum örmum, hjálpa þeim að líða vel í eigin skinni og ekki þvinga þau í eitthvert mót sem „hentar liðinu vel”.

Við gætum búið til næsta Zlatan eða við gætum búið til betri manneskju. Orð eru til alls fyrst en aðgerða er þörf.

Bestu kveðjur
Þorkell Máni Pétursson.
fyrrum knattspyrnuþjáfari
Athugasemdir
banner
banner