Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 04. júní 2019 08:27
Elvar Geir Magnússon
Tilgangslausasti leikur í sögu fótboltans verður á sunnudag
Aleksander Ceferin, forseti UEFA, með bikar Þjóðadeildarinnar.
Aleksander Ceferin, forseti UEFA, með bikar Þjóðadeildarinnar.
Mynd: Getty Images
Úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar fer af stað á morgun en hún er leikin í Portúgal. Heimamenn mæta Sviss og á fimmtudag leikur Holland gegn Englandi í undanúrslitum.

Úrslitaleikurinn verður á sunnudaginn en sama dag verður einnig leikið um bronsið.

Martin Samuel, íþróttafréttamaðurinn reyndi hjá Daily Mail, segir að um sé að ræða tilgangslausasta leik í sögu fótboltans.

„Ég get ekki ímyndað mér að nokkur hafi áhuga á þessum leik. Eftir langt og strangt tímabil þurfa leikmenn að spila þennan leik, bara fyrir jakkafatakarla og styrktaraðila," segir Samuel um bronsleikinn.

„Við vitum varla hvaða þýðingu það hefur að vinna Þjóðadeildina. Af hverju fara liðin sem tapa í undanúrslitunum ekki bara heim? Það er ekki leikið um bronsið í Meistaradeildinni eða FA-bikarnum. EM landsliða hefur verið án leiks um þriðja sætið frá 1980 og engin umræða er um að endurvekja hann, vegna þess að öllum er sama."

Samuel er ekki aðdáandi Þjóðadeildarinnar og segir að keppnin sé óþarfi. Þá segir hann að álagið á fótboltamenn í dag sé orðið of mikið og það hafi sést best í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þar sem lítið hafi verið eftir á tanknum hjá leikmönnum í lok tímabils.

„FIFA hefur nú staðfest endurbætt HM félagsliða sem á að innihalda 24 lið og vera milli 17. júní og 4. júlí 2021. Hvenær eiga leikmenn að fá frí?" spyr Samuel.
Athugasemdir
banner
banner
banner