De Zerbi á blaði Real Madrid - Ekki hægt að laga samband Ten Hag og Sancho - Chelsea vill fá vinstri bakvörð
banner
   sun 04. júní 2023 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bauluðu hressilega á Messi fyrir kveðjuleikinn
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Lionel Messi hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Paris Saint-Germain en dvöl hans hjá félaginu var ekki sú besta þar sem honum lenti upp á kant við stuðningsmenn.


PSG vann frönsku deildina tvö ár í röð með Messi innanborðs en mistókst að ná fram sínu helsta markmiði; að vinna Meistaradeild Evrópu.

Stuðningsmenn PSG eru ósáttir með framlag Messi og hafa verið að nýta öll möguleg tækifæri til að láta hann vita af því. Messi spilaði kveðjuleik sinn með PSG í lokaumferð franska deildartímabilsins í gær og bauluðu áhorfendur hressilega á hann fyrir leik. Baulið hjálpaði Messi ekki þar sem honum tókst hvorki að skora né leggja upp er PSG missti niður tveggja marka forystu til að tapa óvænt 2-3 á heimavelli gegn Clermont.

Það vakti því ekki mikla furðu þegar Messi sleppti sigurhringnum að leikslokum, en samband hans við stuðningsmenn varð súrt strax á fyrsta tímabili og versnaði svo til muna eftir HM í vetur. Franskir stuðningsmenn PSG voru ekki sáttir með hegðun og látbragð Messi í kringum úrslitaleik HM þar sem Argentína lagði Frakkland að velli eftir vítaspyrnukeppni. Þeir urðu svo enn reiðari þegar Messi flaug til Sádí-Arabíu í leyfisleysi og var settur í agabann af stjórn PSG.

Messi, sem verður 36 ára í sumar, skoraði 32 mörk og gaf 35 stoðsendingar í 72 leikjum með PSG.

Riyadh er talinn líklegasti áfangastaður Messi, þar sem hann myndi spila fyrir Al-Hilal í sádí-arabíska boltanum og yrði um leið launahæsti fótboltamaður heims, með næstum því tvöfalt hærri laun heldur en Cristiano Ronaldo hjá Al-Nassr.

Messi, sem rennur út á samningi í sumar, hefur einnig verið orðaður við Barcelona og Inter Miami.


Athugasemdir
banner
banner