Síðustu leikjum dagsins er lokið hjá atvinnumönnunum okkar erlendis, þar sem Tómas Bent Magnússon kom við sögu í naumum sigri Hearts gegn Hibernian í skoska boltanum.
Tómasi var skipt inn á 91. mínútu þegar staðan var enn markalaus en nokkrum sekúndum síðar leit sigurmarkið dagsins ljós. Hearts trónir á toppi skosku deildarinnar með 19 stig eftir 7 umferðir, fimm stigum fyrir ofan margfalda meistara Celtic sem eiga einn leik til góða.
Hjörtur Hermannsson lék þá allan leikinn í liði Volos sem vann stórsigur á útivelli gegn AEL Larissa í efstu deild í Grikklandi. Hjörtur var í hjarta varnarinnar í 2-5 sigri sem fleytir Volos upp í fimmta sætið. Þar er liðið með 9 stig eftir 6 umferðir.
Að lokum lék Ísak Andri Sigurgeirsson allan leikinn er Norrköping tapaði á útivelli gegn GAIS í efstu deild í Svíþjóð. Jónatan Guðni Arnarsson kom inn af bekknum á 79. mínútu en Arnór Ingvi Traustason var fjarverandi vegna leikbanns.
Nokkrir Íslendingar voru ónotaðir varamenn í dag, þar sem Hólmbert Aron Friðjónsson horfði á liðsfélaga sína í Gwangju tapa á heimavelli á meðan Jóhannes Kristinn Bjarnason og Breki Baldursson sátu á sitthvorum bekknum er Kolding lagði Esbjerg að velli í næstefstu deild í Danmörku.
Ólafur Dan Hjaltason var ónotaður varamaður í tapi Aarhus Fremad og Gísli Eyjólfsson fékk ekki tækifæri í 3-0 tapi hjá Halmstad í Svíþjóð.
Í kvennaboltanum voru einnig leikmenn sem sátu á bekknum án þess að spreyta sig og má þar nefna Ísabellu Söru Tryggvadóttur sem horfði á Rosengård tapa gegn Malmö og Emelíu Óskarsdóttur sem horfði á HB Köge leggja AGF að velli.
Anderlecht sigraði gegn Gent í belgíska boltanum og er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fyrstu fjórar umferðirnar. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir var ekki í byrjunarliðinu.
Hearts 1 - 0 Hibernian
AEL Larissa 2 - 5 Volos
Gais 2 - 1 Norrköping
Gwangju 2 - 3 Daegu
Kolding 2 - 1 Esbjerg
Aarhus Fremad 1 - 2 B.93
Öster 3 - 0 Halmstad
Malmö 2 - 1 Rosengard
HB Köge 2 - 0 AGF
Anderlecht 2 - 0 Gent
Athugasemdir