Man Utd gæti misst Fernandes - Napoli vill Mainoo - Barcelona og Liverpool berjast um Upamecano
banner
   lau 04. október 2025 14:19
Brynjar Ingi Erluson
Cecilía tók upp þráðinn þar sem frá var horfið
Kvenaboltinn
Cecilía hélt hreinu í fyrstu umferð deildarinnar
Cecilía hélt hreinu í fyrstu umferð deildarinnar
Mynd: EPA
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hélt hreinu er Inter gjörsigraði nýliða Ternana, 5-0, í 1. umferð Seríu A á Ítalíu í dag.

Landsliðskonan var besti markvörður deildarinnar á síðasta tímabili og hélt hreinu tíu sinnum.

Hún tók upp þráðinn þar sem frá var horfið og hélt örugglega hreinu gegn Ternana. Tvisvar sinnum reyndu gestirnir á Cecilíu, en í bæði skiptin varði hún frábærlega.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var ekki með Inter í leiknum.

Alexandra Jóhannsdóttir og Elísa Lana Sigurjónsdóttir komu báðar inn af bekknum í 2-1 sigri Kristianstad á Vittsjö í sænsku úrvalsdeildinni.

Kristianstad er í 5. sæti með 37 stig.

Andrea Þórisson byrjaði hjá Bollstanas sem tapaði fyrir Örebrö, 3-0, í B-deildinni. Bollstanas er í næst neðsta sæti með 15 stig.

Glódís Perla Viggósdóttir kom inn af bekknum hjá Bayern München sem vann öruggan 4-0 sigur á Werder Bremen í þýsku deildinni. Bayern er í öðru sæti með 13 stig eftir fimm leiki.

Amanda Andradóttir spilaði þá síðustu mínúturnar í 3-1 sigri Twente á PSV í hollensku úrvalsdeildinni. Twente er á toppnum með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.
Athugasemdir
banner