Efasemdir um Konate - Liverpool með Lacroix á blaði - Man Utd vill Úkraínumann
banner
   fös 03. október 2025 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Mikill heiður að vinna með Davíð Smára og sjokk að fá tíðindin
Elmar Atli með bikarinn.
Elmar Atli með bikarinn.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Árangur liðsins undir hans stjórn talar sínu máli'
'Árangur liðsins undir hans stjórn talar sínu máli'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Vorum allir sammála um það að við þyrftum að taka okkur saman í andlitinu fyrir restina af mótinu'
'Vorum allir sammála um það að við þyrftum að taka okkur saman í andlitinu fyrir restina af mótinu'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Mér finnst menn strax vera komnir aðeins upp á tærnar og klárir fyrir restina af mótinu.'
'Mér finnst menn strax vera komnir aðeins upp á tærnar og klárir fyrir restina af mótinu.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég hef ekki alltaf verið sammála honum og ætla ekki að neita því að þetta sé búið að vera erfitt fyrir mig í sumar en ég hef reynt að tækla þetta með fagmennsku og hag liðsins í fyrsta sæti'
'Ég hef ekki alltaf verið sammála honum og ætla ekki að neita því að þetta sé búið að vera erfitt fyrir mig í sumar en ég hef reynt að tækla þetta með fagmennsku og hag liðsins í fyrsta sæti'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjórn Vestra ákvað á mánudag að segja Davíð Smára Lamude, þjálfara liðsins, upp. Davíð Smári hafði gert frábæra hluti með liðið í rétt tæplega þrjú tímabil en gengið að undanförnu, eftir að liðið var Mjólkurbikarmeistari, hefur alls ekki verið nógu gott og hefur Vestri sogast niður í alvöru fallbaráttu. Jón Þór Hauksson, sem stýrði Vestra seinni hluta tímabilsins 2021, var ráðinn út tímabilið.

Fótbolti.net ræddi við fyrirliða Vestra, Elmar Atla Garðarsson, um tíðindi vikunnar og komandi leik gegn KA í Bestu deildinni.

Hvernig var að fá tíðindin á mánudag að Davíð Smári væri að hætta?

„Við vorum kallaðir á fund seinnipartinn á mánudaginn með stjórn félagsins og okkur tilkynnt að Davíð myndi ekki klára tímabilið með okkur. Þetta var óvænt, klárlega. Eitthvað sem maður var ekki búinn að undirbúa sig undir þannig það var ákveðið sjokk að heyra þetta."

„Við fengum útskýringar frá stjórninni varðandi þessa ákvörðun og lítið annað hægt að gera heldur en að virða þær útskýringar. Við getum engu breytt sem leikmenn þegar svona ákvarðanir eru teknar."

„Við leikmenn sátum aðeins eftir inni í klefa eftir fundinn og fórum yfir stöðuna. Ég ætla svo sem ekki djúpt í það hvað þar fór fram en við vorum allir sammála um það að við þyrftum að taka okkur saman í andlitinu fyrir restina af mótinu og gera hlutina eins og menn, sama hver kæmi inn, og að það væri ekki tími í að pæla of mikið í því hvað væri í gangi utan vallar,"
segir Elmar Atli.

Hvernig var að vinna með Davíð í þessi ár?

„Það var mjög þægilegt, mikill heiður. Við náðum vel saman frá fyrsta degi og mynduðum gott og traust samband. Árangur liðsins undir hans stjórn talar sínu máli. Hann á risastóran þátt í uppgangi Vestra síðustu ár og það hafa verið forréttindi að fá að fara í gegnum þetta ævintýri með honum og öllum sem koma að liðinu."

Þú hefur verið í minna hlutverki í ár, setur það einhvern blett á hvernig þú upplifir tímann með Davíð?
Elmar Atli byrjaði mótið í banni, Vestri byrjaði mótið vel og því eðlilega lítið verið að hrófla við liðinu.

„Nei alls ekki. Ég er eðlilega hundfúll yfir litlum spilatíma í sumar, og Davíð vissi það alveg. Það eru allir að stunda þessa íþrótt til að spila leiki og ég er engin undantekning þar. Ég hef alltaf virt hans ákvarðanir og veit að hann velur sitt lið hverju sinni sem hann telur að eigi bestan möguleika á að sigra leiki. Ég hef ekki alltaf verið sammála honum og ætla ekki að neita því að þetta sé búið að vera erfitt fyrir mig í sumar en ég hef reynt að tækla þetta með fagmennsku og hag liðsins í fyrsta sæti."

Hvernig líst þér á að fá Jón Þór inn?

„Bara hrikalega vel. Mér finnst menn strax vera komnir aðeins upp á tærnar og klárir fyrir restina af mótinu. Ég þekki Jón Þór frá því hann var hérna tímabilið 2021 og gerði mjög flotta hluti með okkur. Ég hef fulla trú á því að hann geti komið með orkuna og kraftinn sem hefur vantað í okkur seinustu vikur fyrir þessa leiki sem eru eftir."

Hvernig líst þér á endasprettinn?

„Þetta leggst vel í mig, það er lang skemmtilegast að taka þátt í leikjum sem er mikið undir í. Við eigum krefjandi leik fyrir norðan við KA á sunnudaginn sem hafa verið á alvöru siglingu undanfarið, fyrir utan seinasta leik hjá þeim."

„Við mætum að sjálfsögðu inn í þann leik eins og alla aðra leiki, til að sigra. Við þurfum að þjappa okkur saman og gera þetta almennilega, það er klárt mál. Við vitum allir hvað við getum í fótbolta og við höfum sýnt það á löngum köflum í sumar. Ef við mætum með hausinn á réttum stað í leikinn þá er enginn spurning í mínum huga hvernig fer,"
segir Elmar Atli.

Leikur KA og Vestra fer fram á Greifavellinum á sunnudag. Vestri er sem stendur tveimur stigum fyrir ofan fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    ÍBV 24 9 6 9 30 - 29 +1 33
2.    KA 24 9 5 10 35 - 44 -9 32
3.    ÍA 24 9 1 14 33 - 45 -12 28
4.    Vestri 24 8 3 13 23 - 37 -14 27
5.    Afturelding 24 6 7 11 33 - 42 -9 25
6.    KR 24 6 6 12 46 - 58 -12 24
Athugasemdir