Man Utd gæti misst Fernandes - Napoli vill Mainoo - Barcelona og Liverpool berjast um Upamecano
   lau 04. október 2025 18:05
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Markaveisla í Úlfarsárdal
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram 3 - 3 Tindastóll
0-1 Birgitta Rún Finnbogadóttir ('20)
1-1 Mackenzie Elyze Smith ('36)
2-1 Ólína Sif Hilmarsdóttir ('38)
3-1 Eyrún Vala Harðardóttir ('52)
3-2 Nicola Hauk ('65)
3-3 Makala Woods ('84)

Lestu um leikinn: Fram 3 -  3 Tindastóll

Fram og Tindastóll áttust við í neðri hluta Bestu deildar kvenna í dag og úr varð mikil markaveisla. Liðin voru einungis að spila upp á stoltið þar sem lið Tindastóls var þegar fallið úr deildinni.

Birgitta Rún Finnbogadóttir kom gestunum yfir eftir góða pressu þar sem hún vann boltann ofarlega á vellinum og skoraði auðveldlega. Stólarnir voru sterkari aðilinn fyrri hlutann og klúðruðu nokkrum dauðafærum en svo breyttust hlutirnir.

Heimastelpur skiptu um gír og sneru leiknum við með tveimur mörkum fyrir leikhlé. Fyrst skoraði Mackenzie Smith eftir laglegt samspil við Murielle Tiernan innan vítateigs áður en Ólína Sif Hilmarsdóttir tók forystuna eftir hornspyrnu.

Staðan var 2-1 í leikhlé og tvöfaldaði Eyrún Vala Harðardóttir forystu Fram í upphafi síðari hálfleiks, þegar hún fylgdi eigin stangarskoti eftir með marki.

Nicola Hauk náði að minnka muninn fyrir gestina eftir hornspyrnu og átti Tindastóll líklegast að fá dæmda vítaspyrnu en Róbert Þór Guðmundsson dómari flautaði ekki þegar Makala Woods var felld innan vítateigs.

Makala gerði sér þó lítið fyrir og skoraði jöfnunarmark fyrir Stólana á lokakaflanum eftir góða hápressu. Meira var ekki skorað svo lokatölur urðu 3-3 í Úlfarsárdal.
Athugasemdir
banner