
Marco Silva er dáður hjá Fulham. Hann hefur gert flotta hluti þrátt fyrir að hafa ekki úr miklu að moða.
Marco Silva þjálfari Fulham var svekktur eftir 3-1 tap á útivelli gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Fulham tók forystuna á 70. mínútu en tókst ekki að halda út þökk sé glæsilegum einstaklingsmörkum frá Antoine Semenyo og Justin Kluivert.
Semenyo skoraði að lokum tvö mörk og lagði eitt upp fyrir Bournemouth.
„Þetta er mjög sárt fyrir okkur að tapa með þessum hætti. Við byrjuðum leikinn ekki vel, þeir voru betri fyrstu 10 til 15 mínúturnar, og svo misstum við Sasa Lukic meiddan af velli. Hann er lykilmaður fyrir okkur, hann stýrir spilinu og er sál liðsins. Það var mjög erfið stund fyrir okkur, við erum búnir að missa báða framherjana okkar í meiðsli og Tete," sagði Silva.
„Eftir það urðum við samt betra liðið á vellinum, við byrjuðum að stjórna leiknum og við lokuðum vel á þá. Við komumst í góðar stöður til að refsa þeim en það vantaði bara gæði í síðustu sendinguna. Þeir fengu líka einhver hálffæri en ekkert lið skapaði sér gott færi. Við vorum betri í seinni hálfleik og tókum verðskuldað forystuna. Á þeim tímapunkti stjórnuðum við leiknum fullkomlega.
„Það sem breytti leiknum eru tvö ótrúleg einstaklingsframtök og ég er 100% viss um að við hefðum getað komið í veg fyrir bæði þessi mörk. Fyrst áttu varnarmennirnir að vera sterkari þegar þeir voru tveir á móti einum úti á kantinum og í seinna markinu þá megum við ekki leyfa (Justin) Kluivert að hlaupa með boltann í þetta svæði, við verðum að neyða hann til að fara út á kantinn. Okkur var refsað af tveimur hágæða leikmönnum.
„Þetta er áhugavert því þeir sköpuðu sér fleiri færi í fyrri hálfleiknum en skoruðu svo þrjú mörk án þess að skapa mikið í seinni hálfleik."
Fulham er með 8 stig eftir 7 fyrstu umferðirnar á nýju tímabili. Bournemouth er aftur á móti með 14 stig og situr í öðru sæti úrvalsdeildarinnar sem stendur.
Athugasemdir