Benoný Breki Andrésson og Jason Daði Svanþórsson voru í sigurliðum í enska boltanum í dag.
Benoný var í byrjunarliði Stockport County sem vann nauman 2-1 sigur á Huddersfield í C-deildinni.
Framherjinn fór af velli snemma í síðari hálfleiknum eftir að liðsfélagi hans, Tyler Onyango fékk að líta rauða spjaldið.
Stockport er á ágætu skriði í deildinni en liðið er taplaust í síðustu fjórum leikjum og nú komið upp í 7. sæti með 19 stig.
Jason Daði mætti á völlinn með Grimsby á dögunum og lék annan leik sinn eftir meiðslin er hann kom inn á í 2-0 sigri á Salford í ensku D-deildinni.
Mosfellingurinn spilaði hálftíma og fer því að styttast í að hann verði klár í að byrja.
Grimsby er í 3. sæti með 21 stig eftir ellefu umferðir.
Stefán Ingi Sigurðarson var fremstur hjá Sandefjord sem marði 1-0 sigur á Bryne í norsku úrvalsdeildinni. Sandefjord er í 5. sæti með 34 stig.
Davíð Snær Jóhannsson kom inn af bekknum í 2-0 sigri Álasunds á Sogndal í norsku B-deildinni. Ólafur Guðmundsson var ónotaður varamaður, en Álasund er í 5. sæti með 41 stig.
Nökkvi Þeyr Þórisson lék þá síðustu mínúturnar í frábæru 3-3 jafntefli Spörtu Rotterdam gegn Ajax í hollensku úrvalsdeildinni.
Þetta jafntefli mun líklega hafa mikil áhrif á þjálfaramál Ajax, en talið er að Jonny Heitinga verði rekinn á næstu dögum og er Erik ten Hag líklegastur til að taka við.
Ajax er í 3. sæti með 16 stig en Sparta í 10. sæti með 10 stig.
Athugasemdir